Það var mikið fjör í Sögumiðstöðinni síðastliðinn þriðjudag þegar 36 hressir Frakkar frá Paimpol, vinabæ Grundarfjarðar, sátu þar að snæðingi í hádeginu. Hópurinn hefur verið að ferðast hringinn í kringum Ísland en kom við í Grundarfirði til að afhenda formlega upplýsingaplatta til að setja við minningarkrossinn á Grundarkambinum.

Gestirnir hlustuðu af athygli á Björgu Ágústsdóttur fara yfir sögu Frakka í Grundarfirði.

Grundfirskir félagar í Grundapol voru viðstaddir móttökuna ásamt bæjarstjóra, skrifstofustjóra og menningarfulltrúa bæjarins. Björg Ágústsdóttir var með kynningu á sögu Frakka hér í firðinum og rakti að auki samskipti vinabæjanna frá því til þeirra var stofnað árið 2004.

 

Að loknum góðum hádegisverði gengu gestirnir upp Hrannarstíginn (Rue de Paimpol) að Paimpol garðinum áður en þeir dáðust að Kirkjufellinu og Kirkjufellsfossi. Loks gengu þeir að krossinum á Grundarkambi sem var gefinn Grundarfjarðarbæ til minningar um franska sjómenn sem stunduðu veiðar við Íslandsstrendur á nítjándu öld.

Plattinn sem gestirnir afhentu Grundarfjarðarbæ verður festur á undirstöður við krossinn á Grundarkambi.

Mikil ánægja var með þessa skemmtilegu heimsókn og héldu gestirnir glaðir í bragði áfram hringferð sinni eftir dagsferð í Grundarfjörð.