Til íbúa Grundarfjarðar,

Um sjö  mánuðir eru nú liðnir frá því flokkun á sorpi hófst í Grundarfirði. Á þessum tíma hefur aðeins um helmingur þess sorps sem sótt er á heimili endað í urðun. En eins og íbúar Grundarfjarðar vita er það eingöngu það sem fer í gráu tunnuna sem er urðað.

Annað „sorp“, eða það sem við kjósum að kalla hráefni, er sent í jarðgerð eða til endurvinnslu. Það sem sett er í brúnu tunnuna fer í jarðgerð og endar sem næringarrík molta í görðum íbúa sveitarfélagsins. Það sem fer í grænu tunnuna er sent til endurvinnslu og endar sem nýjar umbúðir, pappír eða annað úr viðkomandi efni sem síðan er oftast hægt að endurvinna á nýjan leik.

Íbúar Grundarfjarðar hafa lang flestir gert sér grein fyrir mikilvægi góðs frágangs þess hráefnis sem sett er í tunnurnar, þá sérstaklega brúnu og grænu tunnurnar. Flokkun hefur almennt verið til fyrirmyndar en þó hefur borið á misskilningi varðandi frágang í tunnurnar. Við minnum á mikilvægi þess að fara að leiðbeiningum svo hráefnið komist réttar leiðir og þurfi ekki að enda í urðun.

Eitthvað hefur borið á því að plastpokar séu notaðir undir lífrænan úrgang sem settur er í brúnu tunnuna. Mjög mikilvægt er að nota svo kallaða maíspoka undir þann flokk. Þeir pokar eru búnir til úr maíssterkju og brotna því niður og eyðast í jarðgerðinni. Það tekur hins vegar plastpokann mörg ár að brotna niður. Hentar hann því ekki í jarðgerð og ætti alls ekki að fara í brúnu tunnuna.

Einnig viljum við minna á mikilvægi góðs frágangs í grænu tunnuna. Í hana fara fimm mismunandi flokkar af endurvinnsluhráefni. Þegar innihald grænu tunnunnar kemur inn á flokkunarstöð Íslenska Gámafélagsins eru mismunandi flokkar flokkaðir í sundur. Til þess að flokkunin geti gengið er mikilvægt að gengið sé frá hráefninu eins og beðið er um í leiðbeiningum í flokkunarhandbók sem dreift var á heimili sl. sumar.

Leiðbeiningar um flokkun er einnig hægt að nálgast á heimasíðu Grundarfjarðar, grundarfjordur.is, og á flokkarinn.is sem er síða á vegum Íslenska Gámafélagsins.  Þar er einnig að finna sorphirðudagatöl sem sýna á hvaða dögum tunnurnar eru losaðar.

Með kveðju,

Umhverfissvið Íslenska Gámafélagsins.