Með breiðari göngusvæðum og bættum göngutengingum verður bærinn okkar öruggari. Svona gæti stemningi…
Með breiðari göngusvæðum og bættum göngutengingum verður bærinn okkar öruggari. Svona gæti stemningin orðið á Borgarbraut.
Herborg Árnadóttir, Alta, teiknaði.

Grundarfjarðarbær stendur fyrir umfangsmiklum gatna- og stígaframkvæmdum í ár.  Með því er farið í tímabært viðhald gangstétta og endurbætur á göngutengingum. Tækifærið er nýtt til að breikka og bæta göngusvæðin og í leiðinni er bætt við "blágrænum svæðum" - þ.e. gróðursvæðum sem taka við regnvatni. 

Markmið framkvæmdanna er þríþætt: 

1. Að auka öryggi íbúa og vegfarenda, og horfa jafnframt á þarfir samfélagsins til lengri framtíðar við hönnun gatna og stíga

2. Að gera bæjarumhverfið enn hlýlegra, m.a. með því að bæta í það gróðri

3. Að gera græn svæði betur úr garði til að taka við regnvatni og þannig létta álagi af holræsakerfi bæjarins

Verkefnið mun taka nokkur ár, en eftirfarandi eru helstu framkvæmdir í sumar og haust: 

Grundargata

  • Öll Grundargatan verður malbikuð, frá rimlahliði við Hellnafell og austur fyrir Gröf II. Sú framkvæmd hófst 17. ágúst og er að mestu lokið.
  • Vegna malbikunar eru gangbrautarþveranir/hindranir (fimm alls) teknar. Þær verða endurnýjaðar síðar, en munu taka breytingum og staðsetning þeirra getur breyst. Miðeyjur sem fyrir eru víða í götunni verða hins vegar að flestar óbreyttar, a.m.k. um sinn.
  • Frá gatnamótum við Sæból/Fagurhólstún, að gatnamótum við Eyrarveg, einnig frá Borgarbraut og að innstu húsum verða gangstéttar og eyjur sunnanmegin í götu fjarlægðar. Steypt verður ný 3ja metra gangstétt sem jafnframt þjónar sem hjólastígur.  Verktími steyptra gangstétta er í september.  
  • Eins og kynnt var 2018 (austanverð Grundargata) er ætlunin að bílastæði verði einungis norðan megin í götunni. Miðlínu Grundargötu, frá innstu húsum og að Borgarbraut, verður þá hliðrað til suðurs.
  • Gangstétt norðan megin í Grundargötu, frá Gamla pósthúsi og að gatnamótum við Sæból verður sömuleiðis endurnýuð.  
  • Sex ljósastaurar sunnan megin í götunni verða færðir, þ.e. á Grundargötu frá gatnamótum við Sæból/Fagurhólstún og að gatnamótum við Eyrarveg.
  • Kantsteinar verða endurnýjaðir á nokkrum stöðum til viðbótar.

Smiðjustígur

  • Gatan verður öll malbikuð (yfirlögn)
  • Gangstéttin öll fjarlægð og ný og breiðari verður malbikuð í staðinn. Hún verður kantlaus, þ.e. nánast í sömu hæð og gatan
  • Gönguleið víkkuð úr botni götunnar yfir á lóð við Ráðhúsið
  • Smiðjustígurinn er fjölfarin gönguleið til og frá grunnskóla og íþróttasvæði og með þessu er ætlunin að bæta gönguaðstæður, m.a. að auðveldara verði að moka snjó af göngusvæði. 

Borgarbraut - miðhluti, frá Grundargötu að Hlíðarvegi

  • Á miðhluta Borgarbrautar verða gangstéttar endurnýjaðar. Þær gömlu hafa verið fjarlægðar og nýjar verða malbikaðar í staðinn.
  • Vestan megin í götunni verður malbikaður 2,7 metra breiður gangstígur, sem jafnframt er hjólastígur. Austan megin í Borgarbraut á þessum hluta verður malbikuð gangstétt um 1,5 metri á breidd. Gangstéttar eru í sömu hæð og gata, en verða afmarkaðar frá götu með "doppum" eða öðrum aðferðum. 
  • Horn á gatnamótum Borgarbrautar/Hlíðarvegar verða sömuleiðis endurbætt. Gangbrautir færast til og þær gerðar skarpari.  
  • Bílastæði verða austan megin í götunni, upp við gangstétt.
  • Vestan megin verður útbúið gróðursvæði, regnbeð, sem mun aðskilja gangstíg og akbraut. 
  • Hönnun götunnar miðast við 30 km hámarkshraða.  

Hrannarstígur - miðhluti, frá Sögumiðstöð að Fellaskjóli 

  • Gangstétt vestan megin í götunni verður endurnýjuð. Sú gamla hefur verið fjarlægð ásamt graseyjum, og nýr göngustígur/hjólastígur verður malbikaður í mun meiri breidd og í sömu hæð og gata, en með halla að götu. 
  • Græn svæði austan megin í götunni halda sér, en í framtíðinni er ætlunin að gera þau enn gegndræpari þannig að þau geti tekið við meira regnvatni en áður og þannig minnkað álag á holræsakerfið í miklum vatnsveðrum.  - Vatnsagi um og niður Hrannarstíg hefur oft valdið álagi á holræsakerfi í götunni og einstaka aðliggjandi húsum.  
  • Bílastæði verða áfram vestan megin, upp við gangstíg. 
  • Í staðinn fyrir færanlegar hraðahindranir á þessum hluta Hrannarstígs, verða seinna meir útbúin græn innskot í götuna, sem eru liður í hraðalækkandi aðgerðum. 

Sæból – hluti, frá Sæbóli 25 og út fyrir Sæból 1 (að samkomuhúsi)  

  • Á þessum kafla hefur gangstétt sunnan megin í götu verið fjarlægð og verður ný malbikuð, 1,5 m að breidd. 
    (Reiknað er með 2,80 m breiðri gangstétt/stíg norðan megin í götunni - en sá hluti er ekki tekinn í ár). 
  • Blágræn svæði (regnbeð og gróður) verða norðan megin í götunni, í framtíðinni – en eru ekki á verkáætlun í ár.  

Við Dvalarheimilið Fellaskjól, Hrannarstíg 20

  • Í botnlanga heim að aðalinngangi húss verður lagt nýtt malbik (yfirlögn)
  • Nýr göngustígur verður malbikaður frá inngangi austan megin, að bílaplani við Grundarfjarðarkirkju
  • Fyrr í sumar var jarðvegsskipt og gerð aksturshæf aðkoma að vesturinngangi, í nýju álmunni  

Aðrar endurbætur og framkvæmdir Mílu 

  • Á nokkrum stöðum verða svo gerðar lagfæringar eða endurbætur á malbiki, kantsteinum og steyptum gangstéttum 
  • Auk þess nýtir Míla hf. tækifærið og leggur ljósleiðara í Grundargötu og í Hrannarstíg, til að þétta lagnanet sitt. 

Íbúum er þökkuð tillitssemi og þolinmæði vegna þessara framkvæmda. 

Breiðar götur; tækifæri til að auka öryggi íbúa

Flestar götur bæjarins eru talsvert breiðar, jafnvel mjög breiðar. Ein breiðasta gatan er Sæból. Rúmir "götukassar" gefa gott tækifæri til að útbúa rýmri svæði fyrir gangandi og hjólandi, sem bæði eykur öryggi fólks og gerir auðveldara að þjónusta svæðin, t.d. moka snjó. Hönnun gatna miðar við 30 km hámarkshraða.

Blágræn svæði*

Í breiðum götum gefst einnig möguleiki til að nýta rýmið fyrir gróðurbeð sem geta tekið vel við ofanvatni - stundum kölluð regnbeð. Blágrænar ofanvatnslausnir eru "fráveituverkefni". Ef græn svæði bæjarins eru vel hönnuð, gegndræp og aðgengileg fyrir flæði vatns, geta þau verið hinir bestu "svelgir". Þau eiga að geta tekið við miklu magni af vatni og þannig létt á holræsakerfi bæjarins. Á veturna geta þau verið geymslusvæði fyrir snjó sem mokað er af gangstéttum. Auk þess eru blágræn svæði kjörin til að fóstra fallegan gróður sem gerir bæinn hlýlegri og bætir andrúmsloftið.

* Blátt táknar vatn og grænt táknar gróður. Blágræn svæði eru gróðursvæði sem eiga að taka við regnvatni, betur en önnur græn svæði.

Breytingarnar byggja á skýrri sýn í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 um grænni og gönguvænni Grundarfjörð, sjá einkum kafla 4.3 og markmið bls. 64-65, sem og 95, í greinargerð aðalskipulagsins.