Grundarfjarðarbær er þátttakandi í umhverfisvottunarverkefni undir merkjum Green Globe 21, eins og komið hefur fram hér á vefnum.

Bæjarstjórn hefur samþykkt framkvæmdaáætlun þar sem tímasett hafa verið ákveðin markmið sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi ætla sér að mæta.

Jóhanna Halldórsdóttir afhendir Björgu Ágústsdóttur bæjarstjóra, fyrsta kassann af umhverfisvænum pappír

Eitt markmið, sem nást átti fyrir 15. nóvember, var að bærinn breytti innkaupum stofnana sinna og notkun á pappír, og notaði eingöngu umhverfisvænan og vottaðan pappír.

Á dögunum afhentu eigendur Hrannarbúðarinnar í Grundarfirði bæjarstjóra kassa af umhverfisvænum, klórfríum pappír „Environmental Label, Type 1” en stofnanir bæjarins kaupa allan pappír hjá versluninni, nema sérprentað bréfsefni. Þar með hefur því markmiði verið náð og segja má að það sé fyrsta áþreifanlega merkið um formlega framkvæmd „Green Globe-stefnunnar“ hjá sveitarfélaginu.

Þess má einnig geta að umhverfisvæni pappírinn reyndist ódýrari en sá sem áður var keyptur og að sögn kunnugra á hann að fara betur með ljósritunarvélar en annar pappír.