Fyrirtækin Leiðarljós ehf. og Umís ehf., sem hafa séð um ráðgjöf og verkefnisstjórn við undirbúning Snæfellsness fyrir vottun Green Globe 21, skiluðu verkinu formlega af sér þann 5. nóvember. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur hjá Umís ehf. fór af því tilefni yfir feril verksins og sagði að menn gætu verið mjög ánægðir með þann árangur sem hefur náðst.

Björg Ágústsdóttir tekur við verkinu úr hendi Stefáns Gíslasonar

“Þið eruð komin mjög langt! Lengra en nokkur annar í þeim heimshluta sem við búum í. Segja má að Snæfellsnes sé komið í takkaskóna, tilbúið til að hlaupa, á meðan aðrir er bara í gúmmístígvélunum,” sagði Stefán. Var Stefán með því að vísa til alls þess undirbúnings sem unninn hefur verið og gerir nú Snæfellsnesi kleift að fara í framkvæmdir í samræmi við stefnu sína.

 

Stefán benti jafnframt á að Snæfellsnes hefði tekið forystu í vinnu að sjálfbærri þróun og allra augu myndu beinast þangað. Því væri mikilvægt að verkin yrðu látin tala. Verkefni eins og vottun frá Green Globe 21 væri verkefni sem sífellt þyrfti að vakta til að fylgjast með eigin árangri, ekki eitthvað sem væri unnið einu sinni og þyrfti síðan ekki að sinna.

Stefán afhenti síðan sveitarstjórnum og þjóðgarðsverði skýrsluna og eintak af handbók Green Globe 21.

 

Kristinn þakkaði verkefnisstjórn fyrir hönd sveitarfélaganna fyrir vel unnin störf og þá hvatningu sem frá henni kom til að fara út í þetta verkefni. Sagði hann að það vekti mikla athygli á landsvísu og taldi að það hefði verið mikið gæfuspor sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi stigu þegar þau ákváðu að leita eftir vottun frá Green Globe 21.

 

Gunnar Örn Gunnarsson bæjarfulltrúi Snæfellsbæjar kvað sér hljóðs og sagðist vilja taka undir það sem Kristinn sagði. Kom hann einnig með fyrirspurn varðandi kostnað við vottunarferlið og svaraði Kristinn henni.

 

Í framhaldi bauð verkefnisstjórn upp á kaffi og Green Globe 21 tertu sem Jón Þór bakari í Brauðgerð Ólafsvíkur hafði töfrað fram. Var hún bökuð úr speltmjöli og skreytt með merki Green Globe 21.