Fulltrúar sveitarfélaganna fimm á Snæfellsnesi og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls tóku formleg á móti viðurkenningu fyrir að hafa mætt viðmiðum Green Globe 21 miðvikudaginn 10. nóvember. Afhendingin fór fram á sýningarbási Ferðamálaráðs Íslands á ferðasýningunni World Travel Market í London. Dagurinn var helgaður ábyrgri ferðaþjónustu og féll afhendingin vel inn í aðra dagskrá um ábyrgð og stefnu í sjálfbærri þróun.

Hópurinn með Cathy og Geoffrey

Cathy Parsons aðalforstjóri Green Globe 21, sagði þegar hún veitti fulltrúum Snæfellsness viðurkenningarskjal til staðfestingar á árangri  þeirra að þau hefðu náð ótrúlegum árangri á stuttum tíma. “Þegar ég og Sir Frank Moore stjórnarformaður Green Globe 21 hittum stýrihópinn og fulltrúa ykkar Kristinn Jónasson bæjarstjóra fyrir ári síðan virtist þetta markmið í órafjarlægð en hér stöndum við nú og fögnum því.”

 

Snæfellsnes fyrirmynd annarra

Cathy sagði samstarfið á Snæfellsnesi einstakt og þakkaði sérstaklega fyrir þá miklu ábyrgð sem svæðið sýndi með því að vinna að sjálfbærri þróun og leita eftir vottun. Á því væri enginn vafi að Snæfellsnes væri fyrirmynd sem aðrar þjóðir heims ættu eftir að líta til og vilja læra af. Að auki væri það leiðandi afl í þróun vottunar í Evrópu þar sem Snæfellsnes væru fyrsta samfélagið á norðurhveli jarðar sem næði þessum áfanga.

 

Geoffrey Lipman, einn stofnenda og stjórnarmaður í Green Globe 21, óskaði Snæfellsnesi til hamingju með árangurinn. Sagði hann muninn á þessari viðurkenningu og öðrum sem væru veittar á World Travel Market vera þá að þessi viðurkenning markaði ekki endalok einhvers verkefnis. Hún staðfesti það ferli sem Snæfellsnes væri lagt af stað inn í því þátttaka í umhverfisvottun væri áframhaldandi ferli. Jafnframt sagði hann að Snæfellsnes væri mikil fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög bæði á Íslandi og annars staðar og sagðist líta á þetta sem stóran áfanga fyrir litla þjóð.

 

Markaðslegur ávinningur

Ársæll Harðarsson markaðstjóri Ferðamálaráðs óskaði Snæfellsnesi einnig til hamingju og sagði að þetta skref væri mikilvægur áfangi í ferðaþjónustu og ljóst að hann myndi nýtast vel í framtíðarmarkaðssetningu svæðisins. Jafnframt kvaðst hann vonast til að starf sveitarfélaganna á Snæfellsnesi yrði hvatning fyrir önnur svæði á Íslandi til að gera slíkt hið sama. Ársæll bar fulltrúum Snæfellsness kveðju Sverris Hauks Gunnlaugssonar sendiherra Íslands í London, en vegna annarra embættiserinda gat hann ekki verið viðstaddur afhendinguna.

 

Athyglisvert fréttaefni

Gísli Einarsson fréttamaður RÚV var á staðnum og myndaði viðburðinn. Auk þess tók Worldroom Travel TV sjónvarpsstöðin sem sendir fréttir af ferðamálum út um allan heim upp ræðu Cathy Parsons við afhendinguna. Tæplegar tuttugu íslensk fyrirtæki kynntu sig á ferðasýningunni og fögnuðu forsvarsmenn þeirra, ásamt öðrum gestum, innilega þessum stóra áfanga sem Snæfellsnes hefur náð í umhverfismálum og stefnu í sjálfbærri þróun.

 

Fréttatilkynning frá Framkvæmdaráði Snæfellsness