Bæjarstjórn samþykkti fyrir nokkru að ráðast í átaksverkefni við trjáræktun, þannig að gróðursett verður skjólbelti ofan byggðarinnar. Þetta er nokkurs konar ,,grænn kragi” til að skýla þéttbýlinu fyrir veðri og vindum í framtíðinni, þegar trén ná vexti. Skógræktarfélag Íslands tók að sér að gera áætlun um ræktun, staðsetningu, plöntuval og framkvæmd verkefnisins, sem líklega verður unnið í áföngum á nokkrum árum. Ætlunin er að hefja gróðursetningu og undirbúning í sumar.

Auk þess fór bærinn þess á leit við Skógræktarfélag Eyrarsveitar í fyrra að félagið og bærinn tækju höndum saman og stæðu fyrir átaki til að styðja fólk í gróðursetningarhugleiðingum innanbæjar. Þannig væri hægt að stuðla að gróðursetningu og plöntun trjáa í görðum og á opnum svæðum til að gera bæinn enn hlýlegri á komandi árum. Ætlunin er að hrinda þessu af stað í sumar. Nánar um það síðar.