- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Föstudaginn 22. júlí sl. var Grundarfjarðarbæ afhentur að gjöf, bekkur sem staðsettur er á kirkjutúninu við Hrannarstíg. Það er Guðmunda Hjartardóttir, sem býr nú að Hrannarstíg 28, í nýrri íbúð eldri borgara, sem gefur bekkinn í minningu eiginmanns síns, Jóns Hanssonar, sem lést árið 2001.
"Eftir að ég flutti í íbúðina mína hér uppfrá kom það oft til tals hjá okkur nágrönnunum að gott væri nú að tylla sér niður á leiðinni í búðina og bankann. Og stundum verður maður bara að gera eitthvað sjálfur í stað þess að heimta allt af öðrum. Þegar ég frétti af þeim sið sem víða tíðkast erlendis að fólk gefi borgum og bæjum bekki í minningu látinna ættingja fannst mér tilvalið að við Jón minn byðum sæti, þeim sem væru á göngu um Hrannarstíginn", sagði Guðmunda Hjartardóttir þegar hún afhenti Björgu bæjarstjóra bekkinn ásamt börnum sínum.
Við afhendinguna afhjúpaði Munda vísu sem letruð er á bekkinn og vegafarendur eru hvattir til að lesa er þeir eiga leið framhjá.
Grundarfjarðarbær þakkar Guðmundu hjartanlega fyrir gjöfina og fyrir þann góða hug sem henni fylgir.
Þennan sama dag voru settir upp fleiri nýir garðbekkir í bænum, sem gott er að tylla sér á.