Í dag var undirritaður samningur milli Grundarfjarðarbæjar og Orkuveitu Reykjavíkur um kaup bæjarins á raforku af OR. Samningurinn tryggir bænum raforku á hagstæðara verði en áður hefur boðist. 

Raforkan er m.a. notuð til húshitunar og götulýsingar, auk þess sem höfnin er stór notandi og selur rafmagn til viðskiptavina sinna.

Það er einmitt Orkuveita Reykjavíkur sem  stendur nú að hitaveituframkvæmdum í Grundarfirði og er þess að vænta að á næstu misserum heyri það sögunni til að hús séu kynt með raforku. Orkuveitan rekur einnig Vatnsveitu Grundarfjarðar sem fyrirtækið keypti á síðasta ári.  

 

 

Ingibjörg Valdimarsdóttir og Hafrún Þorvaldsdóttir frá OR og Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri handsala samninginn

Frá árinu 2003 hefur sala rafmagns á íslenskum raforkumarkaði verið gefin frjáls í áföngum. Um síðustu áramót varð raforkunotendum frjálst að velja sér raforkusala, skv. raforkulögum. Orkuveita Reykjavíkur er eitt af sjö sölufyrirtækjum sem annast smásölu á rafmagni til heimila og fyrirtækja.