Á landinu öllu eru tæplega 50 hafnasjóðir og hefur þeim fækkað nokkuð hin síðari ár í kjölfar sameiningar sveitarfélaga og stofnunar hafnasamlaga. Hafnir eru því nokkuð fleiri en hafnarsjóðirnir sem að þeim standa. Hafnir og sjóvarnargarðar eru í eigu sveitarfélaga sem jafnframt annast rekstur þeirra. Ríkið veitir sveitarfélögum stuðning í hafnamálum og fjárstuðning til nýframkvæmda í höfnum. 

Grundarfjarðarbær er eigandi hafnarinnar. Bæjarstjórn fer með yfirstjórn hafnamála, en felur hafnarstjórn og hafnarstjóra framkvæmdastjórn hafnarinnar. Þriggja manna hafnarstjórn er kjörin af bæjarstjórn til setu á kjörtímabili bæjarstjórnarinnar. Bæjarstjóri er hafnarstjóri og hjá Grundarfjarðarhöfn er einn fastur starfsmaður.

            Um hafnamál gilda hafnalög nr. 61/2003, auk þess sem hafnir/sveitarstjórnir setja höfninni sérstaka hafnarreglugerð. Hver höfn hefur svo eigin gjaldskrá.

            Grundarfjarðarhöfn takmarkast af línu, sem hugsast dregin úr Spjararsnoppu, austan fjarðarins, beint í Flangasker og þaðan aftur í beina stefnu í svokallaðan Hamar, vestan við bæinn Krossnes á vesturströnd fjarðarins. Að öðru leyti takmarkast höfnin af strandlínu milli þessara sömu staða. Hafnarsvæði á landi eru skv. skipulagi.

            Helstu hafnarsvæði eru stóra bryggja (Norðurgarður) með 240 m bryggjukanta, litla bryggja - 90 m kantar, Suðurgarður - 40 m kantur og smábátabryggja (flotbryggja) 60 m kantur.

 

Hafnarstjóri