Litahlaup Grunnskólans, maí 2023 - Mynd Tómas Freyr Kristjánsson
Litahlaup Grunnskólans, maí 2023 - Mynd Tómas Freyr Kristjánsson

Grundarfjarðarbær hefur gefið út kynningarmyndband, að frumkvæði og undir umsjón þrótta- og tómstundanefndar bæjarins og íþrótta- og tómstundafulltrúa. Sjá myndbandið hér.

Í myndbandinu er brugðið upp svipmyndum af blómlegu tómstunda- og félagsstarfi, íþróttum, skólastarfi og mannlífi í Grundarfirði. 

Hugmyndin að myndbandinu kviknaði í samtali fyrri íþrótta- og æskulýðsnefndar við fulltrúa íþrótta- og æskulýðsfélaga í bænum og hefur núverandi nefnd fylgt verkefninu eftir. Í ekki stærra bæjarfélagi en Grundarfirði, með tæplega 900 íbúa, fer fram ótrúlega fjölbreytt íþrótta-, tómstunda- og félagsstarf, sem er hluti af þeim gæðum sem felast í að búa hér. Fjölmargir sja´lfboðaliðar og öflugt bakland gerir slíkt starf mögulegt og íbúar, á öllum aldri, fá að njóta og taka þátt. Ótalið er þá sjálfsprottið félagsstarf og útivist, eins og einnig má sjá í myndbandinu.

Í kynningu fyrir myndbandið segir eftirfarandi: 

"Í Grundarfirði er gott samfélag. Íþrótta- og tómstundastarf er blómlegt og íþróttafélögin njóta öflugs baklands sjálfboðaliða. Félagsstarf er bæði skipulagt og sjálfsprottið, því maður er manns gaman og íbúarnir duglegir að taka sig saman um að gera eitthvað skemmtilegt. Metnaðarfullt starf er unnið í leik-, grunn- og tónlistarskóla bæjarins. Fjölbrautaskóli Snæfellinga í Grundarfirði þjónar Snæfellsnesi, sunnanverðum Vestfjörðum og heldur úti öflugu fjarnámi. Grundarfjörður er góður kostur, fyrir fjölskyldur, fyrir þig og þína!
Þetta myndband er útbúið að frumkvæði íþrótta- og tómstundanefndar Grundarfjarðarbæjar. Nefndin vildi sýna þá fjölbreyttu flóru félags-, íþrótta- og tómstundastarfs sem bæjarbúar halda úti og taka þátt í. Ennfremur til að þakka fyrir óeigingjarnt framlag sjálfboðaliða og til að hvetja alla íbúa til þátttöku!"

Það var Tómas Freyr Kristjánsson, Grundarfirði, sem tók myndirnar og vann myndbandið fyrir Grundarfjarðarbæ.

@Grundarfjarðarbær, 12. júlí 2023