Íbúaþing á laugardaginn

 

Næstkomandi laugardag, 23. nóvember, býður Grundarfjarðarbær til íbúaþings í Fjölbrautaskóla Snæfellinga, kl. 11 - 15.  Dagskrá þingsins samanstendur af fjölbreyttum erindum þar sem heimamenn og gestir koma við sögu.  Að þeim loknum verða umræður í litlum hópum og geta allir viðstaddir stungið upp á umræðuefni. 

 

Dagurinn hefst á morgunverði kl. 10.30 og síðan verður þingið sett kl. 11.  Þá taka við erindi tengd Svæðisgarði Snæfellinga, þar sem Björg Ágústsdóttir verkefnisstjóri hjá Alta, segir frá stöðu verkefnisins og síðan talar Silja Rán Arnardóttir um ungt fólk og Snæfellsnes.  Hún situr í stjórn Snæfríðar, hópi ungs fólks á Snæfellsnesi sem tengist Svæðisgarðsverkefninu.  Gunnar Kristjánsson, verkefnisstjóri segir frá mótun skólastefnu Grundarfjarðar sem nú er unnið að og Jón Eggert Bragason, skólameistari FSN gerir tilraun til að svara spurningunni „Er hægt að mennta frumkvöðla?“.  Því næst fá þinggestir að heyra um sýn ungs fólks og eldra fólks á Grundarfjörð, frá Elsu Árnadóttur, formanni Félags eldri borgara og fulltrúum frá Félagsmiðstöðinni Eden.  Síðasti hluti erindanna er helgaður atvinnumálum.  Þar fjallar Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís um sóknarfæri í sjávarútvegi og Ásbjörn Björgvinsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands flytur erindi sem hann kallar „Samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu, dæmisögur og tækifæri“. 

 

Að erindum loknum verða umræður með afslöppuðu og þægilegu fyrirkomulagi.  Hver sem vill getur stungið upp á umræðuefni og þátttakendur velja sér síðan hópa.  Þegar hópar hafa skilað niðurstöðum, verður þinginu slitið kl. 15.  Þinginu stýra Sigurborg Kr. Hannesdóttir, forseti bæjarstjórnar og Ragnar Smári Guðmundsson.  Þau sitja í stýrihópi vegna þingsins, ásamt Þorbjörgu Gunnarsdóttur og með þeim hefur starfað Alda Hlín Karlsdóttir, menningar- og markaðsfulltrúi.   

 

„Börn eru engin fyrirstaða“ eins og þar stendur, því boðið verður upp á barnagæslu í Leikskólanum Sólvöllum.  Veitingar á þinginu eru í boði Grundarfjarðarbæjar.  Hægt er að koma í stuttan tíma eða vera allan daginn, eftir því sem hentar. 

 

Á þinginu er lögð áhersla á að heyra raddir ungs fólks í bland við raddir þeirra sem eldri eru og reyndari.  Það er von bæjarstjórnar og stýrihóps að Grundfirðingar gefi sér stund frá amstri dagsins til að horfa fram á veginn og líta til nýsköpunar og tækifæra.  Og að sjálfsögðu eru nágrannar á Snæfellsnesi velkomnir.