Eftirfarandi grein birtist í Skessuhorninu fyrir skömmu, um verslun í Grundarfirði. Það er Gunnar Kristjánsson í Grundarfirði sem ritar svo:

 

Það kemur mörgum á óvart sem kemur til Grundarfjarðar hversu margar verslanir er að finna í  ekki stærra byggðarlagi. Það má einnig telja góðan kost  að þótt þær séu ekki allar undir sama þaki er stutt á milli þeirra. Því ætti í þokkalegu veðri ekki að vera mikið mál þ.e. ef menn eru ekki að kaupa þeim mun meira, að leggja bílnum á góðum stað og taka síðan rúnt á milli verslananna gangandi. Við gerum það í þetta sinn leggjum bílnum á lóð Sögumiðstöðvarinnar við gatnamót Hrannarstígs og Grundargötu og röltum síðan yfir Grundargötuna á nýlagðri upphækkaðri gangbraut. Við Hrannarstíginn sem liggur þvert á Grundargötuna  niður að höfn, er fyrst á vinstri hönd að finna Essó – Hraðbúð þar sem bíleigendur finna auk eldsneytis flest það sem nauðsynlega þarf  til bílreksturs en þar er einnig að finna fjölmargt matarkyns, fatnað, skyndibita og margt fleira .

Í átt að höfninni.

Nokkru nær höfninni á hægri hönd eftir að við höfum gengið framhjá Heilsugæslustöðinn komum við í Hrannarbúðina sem er bóka- og ritfangaverslun en þar er ekki síður að finna úrval af leikföngum, tölvu- og tæknivörum ýmisskonar þ.m.t. símum. Þá er þar garn og lopi, prjónar og þess háttar fyrir hannyrðafólk  auk þess sem dýraunnendur finna þar ýmislegt fyrir gæludýr sín og hesta. Þar má  einnig endurnýja öll happdrættin á sama stað. Í næsta húsi og enn nær höfninni  eru þrjár verslanir fyrst er það Lyfja með sínar heilsu- og snyrtivöru að ógleymdum lyfjunum fyrir þá sem til læknis leita. Næstu dyr leiða okkur inn í Blómabúð Maríu þar sem auk blóma og skreytinga af ýmsu tagi og dýrðlegan ilm, kennir ýmissra grasa í gjafavörum.  Innaf blómabúðinni er síðan komið inn á yfirráðasvæði Ríkisstjórans Árna Halldórssonar sem stendur keikur innan um áfengi af ýmsu tagi og alla jafna seinnipart dags. 

Áfram höldum við niður Hrannarstíginn og við beygjum til vinstri  og þar við hornið finnum við Verslunina Hamra sem stendur við Nesveg.  Í þessari verslun geta verklagnir menn og konur sótt sér ýmisslegt til viðhalds og viðgerða á húsakosti sínum auk þess er þarna til sölu ýmiss hlífðar- og regnfatnaður, þar má fá rafmagnsvörur stórar og smáar auk ýmisskonar gjafavöru svo fátt eitt sé nefnt.

 Í þessu húsnæði verslaði í eina tíð og  fyrir margt löngu Emil Magnússon með matvöru og ýmsan varning og hét þá verslunin Grund en flutti sig seinna um set er hann byggði húsið sem hýsir nú Sögumiðstöðina.

Og það er hægt að gista líka.

Út höldum við aftur á Nesveginn en áður en við beygjum til vinstri  blasir Hótel Framnes við á hægri hönd þar sem hægt væri að fá gistingu í hlýlegu umhverfi ef langt er heim. En við ætlum ekki að gist svo við förum í næsta hús eftir að við höfum beygt til vinstri. Þetta er nýlegt hús, sem byggt var eftir að gamla húsið Götuprýði sem þar stóð var rifið, og þar finnum við rafeindafyrirtækið Mareindog Gallerí Tínu. Mareindarmenn sem eru tveir sérhæfa sig í sölu og viðhaldi á tæknibúnaði fyrir skip og báta auk þess að sinna viðhaldi raf- og skrifstofutækja. Eiginkonur þeirra sinna skapandi listþörf sinni og bjóða til sölu handgerðan varning af ýmsu tagi úr leir bæði til skrauts og nytja. Við göngum út frá brosmildum listakonum og eru nú stödd á Eyrarvegi, sem við þræðum áfram uns númerið 17 birtist en baka til í því húsi í kjallara, ræður hárgreiðslukonan á staðnum ríkjum og bíður upp á klippingu og greiðslu og ýmsan varning tengdan þeim geira frá Ice in a bucket.  Þegar þaðan er haldið og aftur út á Eyrarveginn erum við búin að ganga í U á stuttum tíma.

 

Gamla Kaupfélagið.

Einn útidúr hefðum við getað farið þegar við komum út frá Versluninni Hömrum ef  beygt hefði verið til hægri þegar út var komið hefði verið hægt að halda áfram eftir Nesvegi og horfa í leiðinni á athafnalífið við höfnina, en þegar komið er út á horn þar sem Nesvegur mætir Borgarbraut erum við komin að gamla kaupfélagshúsinu sem byggt var í áföngum og yngri hlutinn á sér merkilega sögu um lyftingu á steyptri loflplötu í heilu lagi.  Þarna verslar nú Samkaup- Strax matvöruverslun, en áformar að byggja nýtt hús og tengja reksturinn við Essó stöðina von bráðar og verður þá komið inn í hringinn. En höldum áfram þar sem frá var horfið við hárgreiðslustofuna Hársport og röltum upp að Grundargötu og beygjum til hægri en áður en við  göngum fram hjá Fjölbrautarskólanum nýja horfum við niður að heimilislega fjölskylduveitingastaðnum Krákunni en engin getur sleppt því að líta við á þessum frábæra matsölustað, það gerum við síðar og  komum næst að Pósthúsinu en þar uppi á annari hæð sýsla menn við tölvur hjá fyrirtækinu TSC en það selur ýmsan varning sem tengist þeirri starfsemi auk þess starfrækir TSC þráðlaust netkerfi fyrir fyrirtæki og einstaklinga í  Grundarfirði og víða á Snæfellsnesi. En höldum nú áfram með Grundargötunni og yfir gatnamót Sæbóls og Grundargötu og færum okkur yfir á gangstéttina vinstramegin. Þar komum við fyrst að veitingastaðnum Kaffi 59 þar sem líkt og í Krákunni er boðið upp á  mat og ýmsar veigar auk þess geta fótboltafíklar fylgst þar með enska boltanum. En við ætlum ekki að stoppa þar að þessu sinni enda enginn leikur svo haldið er í næsta hús sem er mjög nýlegt og hýsir þrjú fyrirtæki. Fataverslunin Lindin með tískufatnað á alla fjölskylduna er staðsett í austurenda hússins en síðan er það hreinlætis og rekstrarvöruverslunin Besta sem rekin er í samvinnu við þvotta og hreingerningafyrirtækið Snæþvott og er ekki komið að tómum kofanum á þeim bænum þegar hreingerningar fyrir jólin standa fyrir dyrum auk þess sem þar er að finna rekstrarvörur fyrir fyrirtæki.

Nú er rétt að snúa við.

 Þarna í húsnæði Snæþvotts er komið að endamörkum Grundarfjarðarverslunar í vestri  og hægt að halda til baka sömu leið.  Við göngum nú til baka um þrenn gatnamót uns komið er að  mótum Borgarbrautar og  Grundargötu. En Borgarbrautin liggur upp að Grunnskólanum og einnig að íþrótta og útvistarsvæði Grundfirðinga þar sem meira segja má finna skíðalyftu. En við erum semsag stödd á horninu í gömlu húsi sem eitt sinn var símstöð en þar á eftir Samvinnubanki er nú Videóleigan og söluturninn Kósý með ýmsan þann varning sem freistar og stundum er 50% afsláttur á nammibarnum. En við skulum nú láta allt sælgæti ver og að endingu rölta upp Borgarbrautina uns við komum  að gatnamótum þar sem Hlíðarvegur sker Borgarbrautina og um leið og við göngum yfir á gangbraut horfum við á reisulegt húsið vinstramegin skáhalt á móti en þar er rekið Farfuglaheimili í dag og þar höfum við annan valkost í gistingu. Þegar við erum komin yfir götuna beygjum við til hægri fram hjá einu húsi og að því næsta en þá blasir við skiltið Stellubúð sem er staðsett í bílskúr við hús númer tvö. Þar inni kennir margra grasa í föndur og hannyrðavörum, auk þess selt er tilbúið handverk af ýmsum toga. Við látum þessu búðarrölti þar með lokið og göngum út í kvöldhúmið beygjum til vinstri og dáumst að Grundarfjarðarkirkju sem ber við himin og senn erum við komin að Hrannarstíg sem við göngum nú niður í átt að bílnum okkar við Sögumiðstöðina og það er ekki amalegt að enda þennan göngutúr í heimsókn á nýstárlegt og stórmerkilegt safn sem komið hefur verið fyrir í húsi sem eitt sinn var matvöruverslunin Grund eins og áður er getið.