Síðastliðinn fimmtudag mætti Grundarfjörður liði Afríku á Leiknisvelli í Breiðholtinu. Grundarfjörður sem var fyrir þennan leik í öðru sæti C-riðils með 25 stig á meðan Afríka var á hinum endanum með aðeins eitt stig.

Leikurinn fór fram í fínasta veðri en smá súld var á köflum, alveg blanka logn og aðstæður til knattspyrnuiðkunar til fyrirmyndar.

Leikurinn byrjaði frekar rólega en Grundfirðingar voru heldur meira með boltann án þess að vera að skapa sér nein hættuleg færi. Afríkumenn lágu svolítið til baka og freistuðu þess að beita skyndisóknum. Það var eftir eina slíka að þeir ná góðu skoti að marki en boltinn hafnaði í þverslánni og aftur úti í teig þar sem að Grundfirðingar ná að bægja hættunni frá. Þar sluppu þeir með skrekkinn.

Það dró svo til tíðinda á 42. mínútu þegar einn leikmaður Afríku átti ljóta tæklingu aftan í Jón Steinar Ólafsson sem lá óvígur eftir. Hiti færðist í menn við þetta sem endaði með því að einum leikmanni Afríku var vikið af leikvelli með rautt spjald. Jón Steinar gat ekki haldið leik áfram og kom Runólfur Jóhann Kristjánsson inn á í hans stað. Við það færðist mikið líf í sóknarleik Grundfirðinga og fengu þeir þrjú dauðafæri á þrem mínútum áður en dómarinn flautaði til hálfleiks og voru óheppnir að staðan var markalaus í hálfleik.

Í síðari hálfleik héldu Grundfirðingar uppteknum hætti og strax í upphafi hálfleiksins slapp Runólfur einn í gegn og kláraði færið sitt af mikilli yfirvegun og kom Grundarfirði í 1-0 fyllilega verðskuldað. Það var svo örfáum mínútum síðar að Heimir Þór Ásgeirsson á gott skot að marki sem að markvörður Afríku réði ekki við og boltinn söng í netinu og staðan orðin 2-0 og síðari hálfleikur rétt nýhafinn.

Eftir þetta var aldrei spurning um úrslit leiksins því að Grundfirðingar voru með tögl og hagldir inni á vellinum. Þeir sköpuðu sér aragrúa af færum og voru óheppnir að bæta ekki við fleiri mörkum.

Lokastaðan varð því sú að Grundarfjörður sigraði með tveimur mörkum gegn engu og náðu þriggja stiga forystu á toppi riðilsins með 28 stig. Álftanes er næst með 25 stig.

Næsti leikur Grundarfjarðar er gegn Kára frá Akranesi og verður því um sannkallaðan Vesturlandsslag laugardaginn 6. ágúst næstkomandi.