Á mánudagskvöldið tóku Grundfirðingar á móti Hamri frá Hveragerði í 2. deild karla í blaki. Leikurinn, sem fram fór í Grundarfirði, var mjög jafn og skemmtilegur. Með stuðningi áhorfenda og trommusveitarinnar náðu heimamenn að landa naumum sigri  3:2. Hrinurnar voru allar jafnar og spennandi eins og tölurnar bera með sér (25:22, 20:25, 25:22, 19:25  og 18:16). Þetta var annar sigur Grundfirðinga í 2. deildinni í vetur. Um 90 áhorfendur voru í íþróttahúsinu og var stuðningur þeirra mikilvægur í þessum mikla baráttuleik, sem var sá síðasti hjá Grundfirðingum á þessu ári í blakinu.