Í myndbandi sem finna má á www.youtube.com, er upplýst að nú safni „Grundfirska mafían“ liði.  Sannleikurinn í málinu er sá að Félag atvinnulífsins í Grundarfirði, vinnur að endurskipulagningu félagsins til að stuðla að gerjun, hugmyndaauðgi, samstarfi og samstöðu meðal atvinnurekenda í Grundarfirði.  Markmiðið er að nýta þau tækifæri sem gefast á breyttum tímum.  Yfirskrift verkefnisins er „Þeir fiska sem róa“ og það er styrkt af Vaxtarsamningi Vesturlands. 

Fimmtudaginn 18. febrúar, var opinn fundur þar sem komu 23 einstaklingar, frá hátt á öðrum tug fyrirtækja.  Fundarmenn voru sammála um að endurvekja starfsemi FAG á nýjum, eða kannski öllu heldur upphaflegum forsendum. Rætt var um aðstæður í þjóðfélaginu í dag, erfiðleika í atvinnurekstri, skuldsetningu fyrirtækja og vonleysi.  Þetta sé þó ekki varanleg staða og full ástæða sé fyrir fyrirtækin að auka samstarf bæði til að styrkja sig í vörninni og búa sig undir framtíðina.  Bent var á mikilvægi þess að verksvið félagsins verði skýrt skilgreint, til að væntingar verði raunhæfar.

Í lok fundar fékk hver þátttakandi lítinn minjagrip,  öngul á trékubbi, þar sem á stendur „Þeir fiska sem róa“. 

Ákveðið var að koma á reglulegum súpufundum á vegum FAG og verður sá fyrsti næstkomandi þriðjudag 23. febrúar, á veitingahúsinu Kaffi 59.

Niðurstaða fundarins endurspeglast í þessum orðum eins fundarmanna:  „Ef það eykur okkur þor og bjartsýni, þá er það þess virði að fá sér súpu“.