Grunnskóli Grundarfjarðar var settur mánudaginn 25. ágúst.  Nemendur eru nú 126 og hefur fækkað verulega síðustu ár.  Samkennsla hefur aukist vegna þessa og er nú samkennt í nokkrum fögum í yngstu árgöngum og í íþróttum.

Þrettán  kennarar  og þrír leiðbeinendur eru nú starfandi við skólann  auk skólastjórnenda  Einnig mun Tryggvi Hermannsson sem ráðinn hefur verið sem organisti og kennari við tónlistarskólann taka að sér tónmenntakennslu. Tveir kennarar eru í fæðingarorlofi og einn í ársleyfi.

 

Skólastarf fer vel af stað og er með svipuðu sniði og síðustu ár.  Á döfinni er að endurskoða skólastefnu og samræma í samvinnu við bæjaryfirvöld.  Einnig er ætlunin að vinna markvisst að skólamati í vetur en tilgangurinn með því er að meta ýmsa þætti skólastarfsins og greina það sem gott er og það sem þarf að bæta og í framhaldinu verður unnin úrbótaáætlun.  Nemendur, foreldrar og starfsfólk mun koma að matinu.

 

Starfsdeildin verður áfram starfandi en  hún hefur í för með sér aukið námsframboð á unglingastigi og gefur meiri möguleika á námi við hæfi.

 

Skólinn tekur þátt í nýju dreifmenntaverkefni í vetur en það er unnið í samstarfi við skólana á Snæfellsnesi og skólana í Vesturbyggð.  Hugmyndin er að samnýta kennara á svæðinu  þannig að einn kennari getur kennt námsgrein í fleiri en einum skóla í einu og verður  m.a. kennt gegnum fjarfundabúnað og vefumsjónarkerfi.  Við munum nýta okkur dönskukennslu fyrir 10. bekk með þessu sniði í vetur.  Kennsla með þessu sniði er góður undirbúningur fyrir nemendur  sem fara í framhaldsskóla sem kenna með þessu sniði s.s. Fjölbrautaskóli Snæfellinga.

 

Starfsfólk skólans vonast eftir góðu samstarfi við nemendur og foreldrasamfélagið og horfir jákvæðum augum til skólaársins.