Eins og kunnugt er hefur Fjarskiptastofnun boðið út styrkingu GSM kefisins á landsbyggðinni.  Verkefnið verður fjármagnað með hluta af "símapeningunum" svokölluðu.  Þetta er afar þakkarvert og jafnframt brýnt verkefni vegna þess að GSM símar eru orðnir helsta öryggistækið í fjarskiptum hjá almennum vegfarendum.  Forgangsröðun í verkefninu vekur að hluta til nokkra athygli.  Snæfellingar þekkja það, að frá Eiði í Grundarfirði að Vegamótum er mjög stopult GSM símasamband og reyndar er útsending RÚV á þessu svæði einnig veik.  Á þessum vegarkafla eru oft mjög erfið veður og geta aðstæður verið varasamar þegar verst stendur á.  Samt sem áður var þessi vegarkafli ekki með í fyrsta útboði þessa verkefnis. 

Reiknað er með að leiðin verði með í útboði á fyrri hluta þessa árs með mögulegum verktíma á næsta eða í versta falli á þarnæsta ári.  Þetta er löng bið eftir sjálfsögðu öryggisatriði fyrir vegfarendur.  Kanna þarf hvort mögulegt sé að flýta framkvæmdum í næsta útboði á verkefninu.