Guðmundur Runólfsson 1920-2011

Guðmundur Runólfsson, heiðursborgari Grundarfjarðar, lést 1. febrúar sl. 90 ára að aldri. Guðmundur var einn af frumkvöðlum Grundarfjarðar og ævistarf hans samofið uppbyggingu byggðarinnar.

 

Guðmundur fæddist í hjáleigunni Stekkjartröð í Eyrarsveit. Foreldrar hans voru Runólfur Jónatansson oddviti á Spjör og Sesselja Gísladóttir. Ársgamall flutti hann með foreldrum sínum í Grafarnes þar sem þau hófu búskap. Fyrst í stað bjuggu þau í Neshúsum sem var fyrsta húsið sem reist var í Grafarnesi. Þau byggðu sér síðan bæ sem fékk nafnið Götuhús og þar ólst Guðmundur upp.

Sem ungur maður hafði Guðmundur ákveðið að verða bóndi, en  hugur hans snerist frá því og hann fór á sjó.  Þar með var lífsstarfið  ráðið og sjómaðurinn varð umsvifamikill útgerðarmaður og vinnuveitandi. Fyrst kynntist Guðmundur raunverulegri sjósókn  þegar hann 9 ára gamall fór með föður sínum á skakskútu frá Stykkishólmi.  Þarna upplifði hann lokin á skútuöldinni og síðan tók vélbátaöldin við. 

 

Útgerðarsaga Guðmundar hófst árið 1947, þegar útgerðarfélagið Runólfur hf. var stofnað utan um rekstur trébáts, Runólfs SH-135 þar sem Guðmundur var skipstjóri til ársins 1955.  Eftir að hann  hafði verið skipstjóri á Hring frá Siglufirði um tíma,  kom nýr  Runólfur árið 1960, 115 brúttólesta stálbátur.  Um 1970 voru skuttogarar að koma til sögunnar víða um land og árið 1975 kom hingað skuttogarinn Runólfur SH-135.  Þetta var fyrsti skuttogarinn við Breiðafjörð, smíðaður í Stálvík í Hafnarfirði.  Þetta var að sögn Guðmundar sjálfs, stærsta stundin í hans eigin útgerðarsögu og  skref sem líka skipti miklu máli fyrir byggðarlagið.  Árið 1974 var  svo Guðmundur Runólfsson hf. stofnað  sem í dag gerir út togarana Hring SH 535 og Helga SH 135 og rekur einnig netaverkstæði og fiskvinnslu. 

 

Guðmundur tók að sér ýmis trúnaðarstörf fyrir sjávarútveginn og sína heimbabyggð. Hann sat m.a. í hreppsnefnd Eyrarsveitar frá 1966 – 1970.

 

Á barnsaldri varð Guðmundur vitni að því hvernig þorp varð til. Hvernig einstaklingar sem ekkert áttu nema kjark og þor ruddu í framkvæmd draumnum um sterkt og dugmikið byggðarlag þar sem frjálst fólk gæti lifað við mannsæmandi aðstæður.  Enginn annar íbúi Grundarfjarðar lifði sögu þessa byggðarlags eins og hann gerði á langri ævi. 

 

Guðmundur verður jarðsunginn frá Grundarfjarðarkirkju laugardaginn 12. febrúar kl. 14.