Sigurbjörg Sandra Pétursdóttir, Hlíðarvegi 14 í Grundarfirði, varð fyrir þeirri skemmtilegu og óvæntu reynslu í gærkvöldi að horfa upp á haförn steypast af flugi ofan í sjóinn við bæinn Háls í Eyrarsveit.  Sigurbjörg fangaði örninn og vafði úlpu sinni utan um hann til að verjast ágangi fuglsins, en hann var illa á sig kominn og allur ataður grút. Í sömu andrá var Valgeir Magnússon verkstjóri áhaldahússins í Grundarfirði á ferð þar hjá og kom Sigurbjörgu til aðstoðar.

 

Fuglinn var settur í hundabúr og var farið með hann í áhaldahúsið.  Eftir viðræður í gærkvöld við Kristinn Hauk Skarphéðinsson hjá Náttúrufræðistofnun var fuglinum ekið til Reykjavíkur.

 

Fuglinn er nú í húsdýragarðinum í Reykjavík þar sem hann fær aðhlynningu og verið er að hreinsa grútinn úr honum.

 

Segja má að Sigurbjörg hafi unnið mikið þrekvirki með því að fanga fuglinn ein síns liðs, en hún er nýlega orðin 12 ára gömul.