Hafnasamband sveitarfélaga hélt hafnasambandsþing sitt í Reykjavík 28. og 29. október sl. Hvert sveitarfélag, sem á höfn, eða hafnasamlag getur gerst aðili að hafnasambandinu og innan vébanda þess eru flestar hafnir landsins.

 

Á þinginu var auk hefðbundinna þingstarfa m.a. fjallað um reynslu íslenskra hafna af siglingavernd, en hafnir landsins hafa margar hverjar staðið í framkvæmdum og undirbúningi á síðustu misserum til að fullnægja kröfum um hafnavernd, þ. á m. Grundarfjarðarhöfn.

Á þingið kom David Whithead formaður ESPO, evrópska hafnasambandsins, og flutti erindi um reynslu ESPO af stöðu sjóflutninga. Þá var á þinginu flutt skýrsla stjórnar og úttekt hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjárhag og stöðu hafna í samkeppnisumhverfi.

Rætt var um þróun hafna í breyttu rekstrarumhverfi og Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri og Skúli Þórðarson sveitarstjóri Húnaþings vestra fluttu erindi um stöðu sjóflutninga á Íslandi. Sjá erindið í word.

Meðal ályktunarefna fundarins má nefna ályktun um gjaldskrár hafna en í ályktuninni eru hafnir landsins brýndar til að vinna í anda nýrra hafnalaga, þ.e. að hafnir skuli með gjaldskrársetningu sinni taka mið af tilkostnaði, s.s. byggingu, rekstri og viðhaldi hafna, þannig að hafnir geti skilað jákvæðri afkomu eftir afskriftir og orðið sjálfbærar og sjálfstæðar rekstrareiningar.

Hægt er að lesa umfjöllun um þingið og erindi sem þar voru flutt á vef Hafnasambandsins www.hafnasamband.is eða með því að smella hér.

Björg Ágústsdóttir var kjörin í stjórn Hafnasambandsins, sem kjörin er á tveggja ára fresti, en stjórnin er þannig skipuð;

Aðalmenn: 
Gísli Gíslason, Akranesi, formaður
Árni Þór Sigurðsson, Reykjavík  
Björn Magnússon, Akureyri
Ólafur M. Kristinsson, Vestmannaeyjum  
Björg Ágústsdóttir, Grundarfjarðarbæ
Steinþór Pétursson, Austurbyggð
Skúli Þórðarson, Húnaþingi vestra

Varamenn:
Bergur Þorleifsson, Reykjavík
Már Sveinbjörnsson, Hafnarfirði
Ragnheiður Hákonardóttir, Ísafirði
Eiður Ragnarsson, Fjarðabyggð
Guðmundur Gunnlaugsson, Vesturbyggð
Reynir Sveinsson, Sandgerði
Jóhanna Reynisdóttir, Vatnsleysustrandarhreppi