Þar sem veðurspá er hagstæð seinni hluta vikunnar í Grundarfirði og nágrenni þá er líklegt að haförninn Sigurörn sem dvalið hefur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum frá því í lok júní öðlist frelsi á ný næstkomandi föstudag. Í frétt frá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum kemur fram að fuglinn kom í garðinn í tengslum við verkefnið „Villt dýr í hremmingum” sem fyrirtækið Fálkinn er bakhjarl að.

 

 

Örninn hafði steypst ofan í lón en náði að koma sér að landi þar sem bjargvætturinn Sigurbjörg S. Pétursdóttir, ung stúlka úr Grundarfirði handsamaði hann og kom honum með góðri hjálp í hendur sérfræðinga. Kom þá í ljós að örninn var mikið grútarblautur og einhverra hluta vegna vantaði á hann allar stélfjaðrirnar og því ósjálfbjarga.

Eftir að Þorvaldur Þ. Björnsson á Náttúrufræðistofnun Íslands hafði þvegið fuglinn nokkrum sinnum var hann settur út í stórt fuglabúr þar sem hann hefur dvalið síðustu 5 mánuði.

Ekki er vitað hvað varð til þess að hann missti stélfjaðrirnar en í fyrstu var talið að vöxtur þeirra allra myndi taka eitt til tvö ár. Annað hefur komið á daginn og óhætt þykir að sleppa honum mun fyrr en í fyrstu var talið enda er stélið fullvaxið á aðeins 5 mánuðum. Eflaust hefur nægt og gott atlæti hjálpað til enda hefur örninn étið vel m.a. hrossakjöt , þorsk og það sem til fellur.

Hann hefur verið var um sig og fylgst vel með því sem er að gerast í kringum hann. Örninn hefur nú náð fullum styrk og er tilbúinn í lífsbaráttuna að nýju. Sigurörn er 6 ára og hefur því reynslu af því að bjarga sér að vetri til.

Umhverfið verður honum kunnuglegt því honum verður sleppt með Kirkjufellið fyrir augunum og það þekkir hann vel. Við þessar aðstæður mun það falla bjargvættinum, Sigurbjörgu S. Pétursdóttur, í skaut að kveðja Sigurörn með því veita honum frelsi að nýju. Spennandi lífsreynsla fyrir unga stúlku.

Auk þess munu nemendur Grunnskóla Grundarfjarðar vera viðstaddir sleppinguna rétt ofan við skólann. Þetta mun gerast kl: 13.00 föstudaginn 24 nóvember, samkvæmt fréttatilkynningu.

Haförninn er mestur íslenskra ránfugla, vænghafið um 220-240 sm og lengdin frá goggi aftur á stélenda er um 90 sm. Kvenfuglinn er nokkru stærri og þyngri (5–6 kg) en karlfuglinn (4–5 kg). Ernir hafa gular klær, goggurinn er dökkur á ungfuglum en lýsist og verður gulur á kynþroska örnum. Ungir ernir á fyrsta ári eru dökkbrúnir en stél hvítt á fullorðnum örnum. Háls, herðar og höfuð lýsast og verða rjómagul með aldrinum.

Haförninn lifir meðal annars á fýl, æðarfugli, lunda og hrognkelsi og einnig börnum samkvæmt þjóðsögum. Arnarstofninn er alfriðaður síðan 1913. Var þá næstum búið að útrýma arnarstofninum því hann var talinn skaðræðisfugl, aðallega út af áti hans í æðarvarpi. Voru þá einungis 30 pör eftir á landinu. Stofnstærð hafarna hér á landi í dag er um 65 pör og að auki um 150 ungfuglar. Haförninn verpir aðallega á Vestfjörðum og Vesturlandi í dag, en aukning hefur verið í arnarhreiðrum undanfarin ár svo ef til vill er ekki langt að bíða að hann sjáist aftur víðar um landið.

Haförninn er einkvænisfugl og sambúð ætíð traust. Arnarhjón helga sér stór óðul og halda tryggð við það eins lengi og kostur er. Þau velja sér yfirleitt hreiðurstæði á breiðum syllum í klettum og á lágum klettanösum við sjávarsíðuna.