Forsvarsmenn sveitarfélaga á Vesturlandi voru nýlega kallaðir til fundar með fulltrúum mennta- og menningarmálalaráðuneytisins um málefni framhaldsskólanna, þ.e. Fjölbrautaskóla Vesturlands, Menntaskóla Borgarfjarðar og Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Á fundinum kom fram vilji ráðuneytisins til að leita eftir frekari hagræðingu í rekstri skólanna og hvernig sé hægt að bæra stöðu þeirra, t.d. með aukinni samvinnu.

Þessar viðræður koma til vegna erfiðrar stöðu framhaldsskólanna, einkum skólans á Snæfellsnesi og Akranesi, sem báðir séu með talsverðan skuldahalda á eftir sér. Í kjölfar fundarins með fulltrúum ráðuneytisins samþykkti bæjarstjórn Grundarfjarðar svohljóðandi bókun:

„Fjölbrautaskóli Snæfellinga tók til starfa árið 2004 og hefur frá upphafi verið leiðandi í breyttum kennsluháttum og í nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi. Bæjarstjórn Grundarfjarðar telur mikilvægt að skólinn haldi sérstöðu sinni og verði áfram sjálfstæð stofnun með eigin skólameistara. Á tímum efnahagsþrenginga og  mikilla áskorana í rekstri er þörf á öflugri og staðbundinni forystu skólans. Skólinn hefur gerbreytt búsetuskilyrðum og atvinnuþróun á starfssvæði í sínu og skiptir sveitarfélögin á norðanverðu Snæfellsnesi miklu máli. Eindregið er lagst gegn hugmyndum um sameiningu framhaldsskóla á Vesturlandi. Bæjarstjórn fagnar hugmyndum um samstarf framhaldsskóla á Vesturlandi og á landsvísu ef það eykur námsframboð og leiðir til hagkvæmari reksturs.“