Af vef Skessuhorns 25/2/2011:

Ferðafélag Snæfellsness fékk nýverið hálfa milljón króna styrk frá Ferðamálastofu við lagningu langrar gönguleiðar á Snæfellsnesi. Um er að ræða um áttatíu kílómetra langa leið frá Ljósufjöllum Hnappadal að Snæfellsjökli eftir Snæfellsnesfjallgarði. Gunnar Njálsson formaður ferðafélagsins segir gönguleiðina koma sem viðbót við þær gönguleiðir sem fyrir eru en Snæfellsnes sé sífellt að sækja í sig veðrið hvað varðar gönguferðir og útivist. “Við sóttum um styrk til Ferðamálastofu nú eftir áramót til undirbúnings. Nú fer af stað undirbúningsvinnan sem felst aðallega í hönnun og samningum við landeigendum. Það á enn eftir að stika leiðina en þetta verður margra ára verkefni.”

Ferðafélag Snæfellsness var stofnað í apríl 2009 og er deild innan Ferðafélags Íslands. Markmið þess er ná saman áhugafólki um gönguferðir og útivist en félagið heldur til dæmis úti áhugaverðum kynningum á ýmsu er lítur að ferðamennsku og útivist auk þess að merkja og stika gönguleiðir. Þá býður félagið upp á gönguferðir og leiðsögn. “Tilkoma þessarar nýju gönguleiðar verður mikið ævintýri en við vonumst til að hún verði tekin í notkun eftir tvö til þrjú ár. Leiðin verður mikill vaxtabroddur og kemur til dæmis með að auka ferðaþjónustu á svæðinu. Nú erum við meðal annars að skoða hvort ekki þurfi að setja upp litla gönguskála á leiðinni en svæðið er þekkt fyrir mikið illviðri í ákveðnum vindáttum,” segir Gunnar og bætir því við að félagið sé þegar byrjað að stika gönguleiðir upp fjallgarðinn, til dæmis frá Grundarfirði, sem tengist þessari nýju leið. Gönguleiðin, sem fengið hefur vinnuheitið Miklabraut, verður þó ekki fyrir hvern sem er. “Leiðin verður heldur erfið og það getur orðið nokkur þraut að ganga hana, sérstaklega vegna þess hversu löng hún verður. Reiðmenn munu til dæmis ekki komast þangað upp á hrossum og þá verður fólk alltaf að gæta sín í vondum veðrum. Þess má hins vegar geta að það er fullt af öðrum skemmtilegum gönguleiðum á þessu svæði, bæði upp fjallgarðinn og á láglendi,” sagði Gunnar að lokum.