Hátíðarhöld í Grundarfirði fara fram með nokkuð breyttu sniði í ár. 

Flestir hefðbundnir dagskrárliðir eru á dagskrá þjóðhátíðardagsins, en sumir þeirra eru þó í öðru formi en áður. 

Áhersla er lögð á skemmtun og þátttöku barna í dagskránni í ár og hefur UMFG umsjón með þeim liðum.
Uppskeruhátíð UMFG er einnig haldin á 17. júní í ár og eru öll börn og unglingar velkomin í fjörið, sem fer fram á svæðinu við sundlaugina, sjá nánar í dagskránni.  

Í staðinn fyrir staðbundna dagskrá eru ávarp fjallkonunnar og hátíðarræða Grundfirðinga tekin upp og verða birt á vef Grundarfjarðarbæjar kl. 11 og 11:30. Hátíðarræðan er ekki flutt af einum ræðumanni, heldur fáum við að heyra hugleiðingar margra Grundfirðinga um það sérstaka tímabil sem nú er - vonandi - að baki.  Innlegg þeirra og upprifjun felur í sér góðar heimildir, sem ætla má að verði verðmætar þegar fram í sækir.  

Við efnum til hvatningarátaks í bakstri, en hnallþórur af margvíslegu tagi hafa gjarnan verið hluti af hátíðlegu yfirbragði þjóðhátíðardagsins. Við "bjóðum" hvert öðru í þjóðhátíðarkaffi með því að smella mynd af afrakstrinum og merkjum sem #hnallthoran2020 - nú eða þá að við látum veitingastaði bæjarins um að reiða fram hnallþórur eða aðrar veitingar dagsins. Umfram allt, njótum með fjölskyldu og vinum. 

Skrúðgangan er með breyttu sniði í ár og við hvetjum ykkur ÖLL til að taka þátt. Hér má sjá hvatningu til íbúa um að mæta í skrúðgönguna. 

Gleðilega þjóðhátíð!