Íþróttahúsið iðar nú af lífi og tugir krakka sækja þar myndlistarnámskeið, leiklistarnámskeið og dans- og fimleikanámskeið, því þessa vikuna standa yfir ævintýranámskeið fyrir börn og ungmenni - og reyndar líka fullorðna. Grundarfjarðarbær fékk til liðs við bæjarbúa fjöllistamanninn Örn Inga ásamt 2 dans- og fimleikastúlkum frá Akureyri. Sjá þau um námskeiðin, ýmsa viðburði og sitthvað óvænt og skemmtilegt þessa vikuna og á hátíðarhelgi Grundfirðinga, Á góðri stund.

 

Grundfirsk ungmenni læra nú að teikna og ganga á stultum, klæða sig í búninga og taka þátt í allskonar ,,leikhúsum", m.a. er ætlunin að setja upp götuleikhús á hátíðarhelginni. En það er ekki bara ungviðið sem stendur í stórræðum, því myndlistarnámskeið fyrir fullorðna er einnig í gangi. Afraksturinn verður sýndur á hátíðinni, en þar mun götuleikhúsið einnig standa fyrir ýmsum óvæntum uppákomum. Dansarar munu ennfremur sýna listir sínar.

 

Örn Ingi hefur aðstoðað hverfin við skipulagningu hverfishátíða.

 

Hann býðst til að leiðbeina fólki um töku ljósmynda á litlu námskeiði, áhugasamir gefi sig fram við Örn Inga (s. 891 1840) eða hitti hann á Kaffi 59 á kvöldin kl. 20.30.

 

Rétt er líka að taka fram að samið hefur verið við Örn Inga um að kvikmynda bæði undirbúninginn og hátíðina í ár, í því skyni að útbúa úr því myndband (disk) til minningar um hátíðarhöldin, ásamt með bútum úr kvikmyndun Arnar Inga síðan í fyrra. Þá átti hann leið um bæinn af tilviljun en varð þátttakandi í hverfishátíð, skrúðgöngu o.fl.