Þemadagar í Grunnskóla Grundarfjarðar 16.-19. mars 2009

Nú standa yfir þemadagar í skólanum og mikið um að vera hjá nemendum. Skóladagurinn byrjar á hollum morgunverði þar sem nemendum er boðið upp á hafragraut og lýsi og síðar ávexti eins og alla aðra daga.
Á yngsta stigi er m.a. lögð áhersla á söng og hreyfingu ásamt því að finna út hvaða matur er hollur og hvaða matur er óhollur.   

Nemendur á miðstigi leggja áherslu á að setja saman holla matseðla, baka brauð og kynna sér mikilvægi hreinlætis. Útivera og íþróttir eru einnig á dagskrá. Hlynur Bæringsson körfuboltasnillingur kemur í heimsókn og  spjallar við krakkana. Nemendurnir taka þátt í boccia og hver dagur endar svo á jóga og slökun.
Elsta stigið byrjaði af miklum móð þegar þær stöllur úr Sólarsport í Ólafsvík komu og drifu alla í erobik. Guðrún snyrtifræðingur og Hugrún hárgreiðslumeistari spjölluðu um mikilvæti hreinlætis og góðrar umhirðu líkamans og Þórdís frá heilsugæslunni ræðir um kynheilbrigði. Auk þessarar fræðslu taka nemendurnir þátt í hópefli, baka og útbúa alls kyns hollar kræsingar, vinna að ljósmyndun og plakatagerð að ógleymdum göngutúrum og annarri hreyfingu.
Svo skemmtilega vill til að forseti Íslands verður á ferð um Grundarfjörð á miðvikudag og heimsækir skólann og spjallaði við nemendur.
Opið hús verður í íþróttahúsinu á fimmtudeginum 19. mars frá kl. 16.30-18.00 þar sem allir eru velkomnir.  Nemendur bjóða gestum að sjá og heyra ýmislegt sem þeir hafa verið að fást við á þemadögunum og einnig gefst gestum tækifæri á að spreyta sig á nokkrum íþróttaþrautum.  Kaffihús verður á staðnum og tilvalið að kaupa sér hressingu áður en heim er haldið en ágóði mun renna í ferðasjóð nemenda.

                                                                                           Aðstoðarskólastjóri