Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðar 14. des. sl., var fjallað um þjónustu heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Grundarfirði, en heyrst hefur að til standi að minnka viðveru læknis í Grundarfirði frá því sem nú er. Eins og kunnugt er, þá er læknir staðsettur í Grundarfirði virka daga frá mánudegi til föstudags og enginn læknir er á laugardögum og sunnudögum.  

Á starfsmannafundi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) í Grundarfirði var rætt um það að læknir í Grundarfirði yrði færður til Ólafsvíkur tvo hálfa daga í viku, sökum þess að bið væri lengri eftir læknaþjónustu í Ólafsvík en í Grundarfirði. Þá hefur verið til athugunar að læknir í Grundarfirði yrði með símatíma fyrir sjúklinga í Ólafsvík.
Gangi þessar hugmyndir eftir skerðist viðverutími lækna í Grundarfirði um 20% frá því sem nú er.

Bæjarstjórn Grundarfjarðar samþykkti svofellda bókun:


"Því er harðlega mótmælt að þjónusta lækna í Grundarfirði verði minnkuð frá því sem nú er. Slík aðgerð yrði í algerri mótsögn við áform ríkisstjórnarinnar um að efla heilsugæslu á landsvísu. Komi til aðgerða af þessu tagi yrði viðvera lækna í Grundarfirði skert um 20% frá því sem nú er. Enginn læknir er í Grundarfirði um helgar.

Ákvörðun af þessum toga getur haft veruleg áhrif á líðan fólks í samfélaginu og ákvarðanatöku fólks um það hvort það vill setjast að í samfélaginu eða ekki.

Bæjarstjórn Grundarfjarðar leggur ríka áherslu á það að fallið verði frá fyrirhuguðum aðgerðum.

Jafnframt furðar bæjarstjórn sig á samskiptaleysi HVE við bæjaryfirvöld."

 

Bókun þessi var send á Heilbrigðisráðherra, alla þingmenn kjördæmisins og Heilbrigðisstofnun Vesturlands.