Teikning: Inga Björnsdóttir.
Teikning: Inga Björnsdóttir.

Í Grundarfirði býr fjöldinn allur af hæfileikaríku og hugmyndaríku fólki, sem finnur nýjar leiðir og jákvæðar, til að gleðja og gleðjast, í þessu óvenjulega ástandi. 

Í ár leitaði Grundarfjarðarbær eftir samstarfi við bæjarbúa um að gera eitthvað skemmtilegt og upplífgandi á aðventunni. Þemað er heima á aðventunni, því í ár sinnum við jólaundirbúningi með breyttum hætti. Flest erum við meira heima við og líklegt að nú gefist einmitt tækifærið til að njóta frekar en þjóta.  

Hér á bæjarvefnum hefur vetrar- og aðventustemning tekið völdin. Hún Inga Björnsdóttir listakona teiknaði myndirnar sem prýða nú forsíðuna. Inga ólst upp í Grundarfirði, bjó í mörg ár í Noregi, en flutti heim í byrjun þessa árs. Myndirnar kalla fram notalega grundfirska aðventu- og jólastemningu.

Þann 22. og 23. nóvember fóru fram upptökur á “Jólalög á aðventunni”. Það er Listvinafélag Grundarfjarðarkirkju í samstarfi við Grundarfjarðarbæ, sem efnir til tónleika, þar sem heimamenn syngja inn jólin. Jólalög á aðventunni verða send út alla sunnudaga á aðventunni, kl. 19, á Youtube-rás Grundarfjarðarbæjar. Sérstakir lokatónleikar verða svo kl. 20 á Þorláksmessukvöld. Þá er tilvalið að eiga notalega stund í rólegheitum með fjölskyldunni - heima.

Ekki missa af fyrsta þætti Jólalaga á aðventunni í kvöld kl. 19. Smellið HÉR til að horfa.

Á morgun kynnum við svo nýjung;  aðventugluggana og fleira sem um verður að vera á aðventunni. Fylgist spennt með! 

Njótum aðventunnar, heima - með okkar nánustu!