Helena Ólafsdóttir hefur verið ráðin íþrótta- og tómstundafulltrúi hjá Grundarfjarðarbæ.

Ráðning hennar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar 28. apríl sl. Alls bárust níu umsóknir um starfið, en ein umsókn var dregin til baka. Vinnvinn ráðningar og ráðgjöf veittu ráðgjöf við úrvinnslu og mat umsókna um starfið, en auk þess hafði bæjarstjórn skipað tvo bæjarfulltrúa til að taka þátt í ráðningarferli, viðtölum við umsækjendur og mati á umsóknum.

Helena lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands 1992, IAK einkaþjálfaranámi frá Keili 2008 og námi í markþjálfun frá Háskólanum í Reykjavík 2018. Helena hefur fjölbreytt réttindi í þjálfun, s.s. KSÍ UEFA Pro knattspyrnuþjálfararéttindi, réttindi hjá KSÍ í barna- og unglingaþjálfun, hún stundaði knattspyrnuþjálfaranám í Danmörku haustið 2000, nám í CrossFit þjálfun o.fl.

Helena hefur yfir 30 ára kennslureynslu, einkum sem íþróttakennari en einnig í öðrum greinum, bæði á grunnskólastigi og í framhaldsskólum, s.s. í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, Fjölbrautaskóla Vesturlands og nú síðast í Menntaskólanum við Sund. Helena hefur langa reynslu úr starfi sem knattspyrnuþjálfari, hefur unnið sem einkaþjálfari og við kennslu í einkaþjálfun, verið ráðgjafi um kvennaknattspyrnu og hefur til margra ára stjórnað sjónvarpsþáttum um kvennaknattspyrnu. Hún hefur unnið að verkefnum tengdum lýðheilsu og setið í ýmsum nefndum og ráðum tengdum knattspyrnu. Hún situr núna í nefnd um byggingu á nýjum Laugardalsvelli (Þjóðarleikvangur ehf.).

Helena er uppalin í Reykjavík, en fyrir dyrum standa flutningar til Ólafsvíkur, þar sem hún mun búa.

Starfssvið 

Íþrótta- og tómstundafulltrúi hefur stjórn og umsjón með íþrótta- og tómstundamálum, forvörnum, lýðheilsuverkefnum og ýmsum viðburðum á vegum bæjarins. Í því felst fagleg og rekstrarleg ábyrgð á starfsemi íþróttamannvirkja, félagsmiðstöðvar unglinga og skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Íþrótta- og tómstundafulltrúi ýmist leiðir eða tekur þátt í þróun, skipulagningu og samræmingu íþrótta- og tómstundastarfs, á vegum bæjarins eða í samstarfi með skólum, íþróttafélögum og öðrum félagasamtökum. Hann er starfsmaður íþrótta- og tómstundanefndar, ungmennaráðs og öldungaráðs. Auk þess leiðir hann undirbúning í verkefni um barnvænt sveitarfélag. Samstarf við félagasamtök, s.s. íþróttafélög, er afar mikilvægur hluti starfsins.

Hér má sjá starfslýsingu.

Helena mun hefja störf 1. ágúst nk. og er hún boðin hjartanlega velkomin til starfa!