Sunnudaginn 19. september verður efnt til helgigöngu á Gufuskálum og  messu í Ingjaldshólskirkju. Eftir stutta helgistund í kirkjunni sem hefst kl. 12. verður ekið í rútu að svokölluðum fiskibyrgjum við Gufuskála og gengið með keltneskan sólkross að einu byrgjanna og þar haldin stutt helgistund með keltnesku ívafi.  

Ýmsir telja líkur á því að þessi byrgi séu eldri en talið hefur verið og geti verið leifar af íverustöðum keltneskra einsetumanna sem voru í slíkum býkúbulaga steinbyrgjum á afskekktum stöðum á Írlandi og Skotlandi en höfðu jafnframt samfélag sín á milli.

 

Frá byrgjunum verður ekið að írskra brunni, svo sem fært er, og gengið að honum með krossinn og haldin þar helgistund. Þaðan verður gengið að sérstæðum steinhleðslum niður við flæðarmál þaðan sem róið var forðum út á sjó. Lögun steinhleðslunnar gæti bent til fornrar kirkju. Þar fer einnig fram stutt helgistund. Síðan verður ekið aftur að Ingjaldshólskirkju þar sem messa hefst kl. 14.

Leiðsögumenn í göngunni verða þeir Skúli Alexandersson, Sæmundur Kristjánsson og dr. Pétur Pétursson.  Sr. Gunnþór Þ. Ingason, prestur á sviði þjóðmenningar annast helgistundir göngunnar.

 

Sr. Ragnheiður Karítas Pétursdóttir, sóknarprestur, þjónar fyrir altari í Ingjaldshólskirkju ásamt sr. Gunnþóri sem  mótar helgihaldið með fornu keltnesku trúarefni. Heimamenn munu lesa ritningarlestra.

 

Nanna Þórðardóttir leikur á orgel og stjórnar Kór Ingjaldshólskirkju er leiðir safnaðarsöng. Eftir messu er verður kaffi í safnaðarheimili kirkjunnar í umsjá foreldra fermingarbarna. Þar mun sr. Gunnþór fjalla í stuttu máli um heilagan Patrek, postula Íra.     

Ingjaldshólskirkja, Átthagastofa Snæfellsbæjar, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, lista og menningarnefnd Snæfellsbæjar og Starfshópur þjóðkirkjunnar um helgistaði á föruleiðum standa að þessu sérstæða helgihaldi sem tengir saman þjóðmenningu og sögu, trú og land.  Dagskráin er fjölskylduvæn og ánægjulegt væri að sem flestir tækju þátt í henni.