Geiri,Heiðar og Garðar verðlaunahafar í kúluvarpi.

 

Heiðar Geirmundsson Grundfirðingurinn sterki lét sig ekki muna um að setja tvö héraðsmet á hinu árlega Steinþórsmóti UMFG sem haldið var á Grundarfjarðarvelli, mánudaginn 29. ágúst. Í kúluvarpi bætti hann met afabróður síns Jóns Péturssonar sem sett var árið 1968. Heiðar kastaði 16,14 metra en gamla metið var 15,98.  Í sleggjukasti hefur Heiðar keppt að því um hríð að bæta þriggja ára gamalt met föður síns Geirmundar Vilhjálmssonar það hefur hann gert tvívegis í sumar, fyrst á Héraðsmóti í Stykkishólmi miðvikudaginn 24. ágúst en þá kastaði hann 43,70 m og  bætti síðan um betur á Steinþórsmótinu er hann kastaði 45,55 m. Þess má geta að þegar Geirmundur setti metið fyrir þremur árum var hann að bæta 30 ára gamalt met sem Jón Pétursson átti einnig.

Steinþórsmótið var í fyrsta sinn haldið á 10 ára afmæli Ungmennafélagsins árið 1943, en þá höfðu brottfluttir félagar tekið sig saman og látið gera silfurskjöld sem þeir gáfu ungmennafélaginu og skyldi keppt um hann í frjálsum íþróttum fullorðinna. Skjöldinn sem  ber nafnið Steinþórsskjöldur, hlýtur sá er stigahæstur er hverju sinni. Fyrsti handhafi skjaldarins var Einar Skarphéðinsson en lengi vel var nafn sigurvegarans grafið á minni skjöld sem hengdur var á keðju skjaldarins. Skjöldurinn var á sínum tíma gefinn í minningu hins forna kappa Steinþórs Þorlákssonar á Eyri sem getið er um í Eyrbyggju. Lengi framan af meðan enginn formlegur íþróttavöllur var til var keppt um skjöldinn á sléttum grundum fram í Eyrarodda eða annars staðar í Eyrarsveit þar sem sléttur voru og búnar höfðu verið til sandgryfjur til og settir niður plankar. Í þessar gryfjur var stokkið langstökk, þrístökk og hástökk og jafnvel stangarstökk. Í gegnum tíðina hafa margir unnið Steinþórsskjöldinn til varðveislu í eitt ár að þessu sinni var það Heiðar sem vann þennan eftirsótta og fagra grip,  en þess má geta að Geirmundur Vilhjálmsson faðir Heiðars hefur unnið skjöldin í 23 skipti.

KB banki var styrktaraðili mótsins.

 

Feðgarnir Geiri og Heiðar.