Kæru íbúar!

Hertar sóttvarnaráðstafanir voru kynntar í dag - sjá nánar frétt á vef Stjórnarráðsins. Ráðstafanirnar hafa stoð í tveimur nýjum reglugerðum.

Ný reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar felur meðal annars í sér að:

  • 10 manna samkomutakmarkanir ná til allra sem eru fæddir fyrir árið 2015. 
  • Áfram er almenn grímuskylda og tveggja metra nálægðarmörk.
  • Grímuskylda nær þó ekki til barna sem fædd eru 2005 og síðar. 
  • Íþróttir barna og fullorðinna, úti og inni, eru óheimilar ef þær krefjast meiri nálægðar en tveggja metra á milli einstaklinga eða ef hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar -  íþróttahús lokar því a.m.k. fram að páskum.
  • Sundstöðum og líkamsræktarstöðvum skal lokað. 

Þessar reglur taka gildi nú á miðnætti og gilda til og með 15. apríl nk. verði þeim ekki breytt fyrr.

Þá er einnig gerð breyting á reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar og leiðir m.a. til þess að: 

  • grunnskólinn og heilsdagsskóli loka á fimmtudag og föstudag, eða fram að páskafríi skv. skóladagatali
  • félagsstarf unglinga/félagsmiðstöð lokar fram að áður ákveðnu páskafríi.
  • tónlistarskóli hafði þegar auglýst að kennsla yrði ekki á fimmtudegi vegna fyrirhugaðrar árshátíðar grunnskóla og engin kennsla átti að vera á föstudegi. Eftir það er skólinn kominn í páskafrí. 
  • leikskólinn og Eldhamrar halda úti starfsemi skv. skóladagatali, en taka mið af hertum sóttvörnum. 
  • foreldrar og forráðamenn fá að öðru leyti nánari upplýsingar um skólastarf frá sínum skólum.

Önnur þjónusta bæjarins er óbreytt, s.s. á bæjarskrifstofu, höfn, áhaldahúsi, bókasafni o.fl. 

Þessi snúningur mála var skyndilegur og minnir okkur á að enn um sinn er verk að vinna. Það er mikilvægt að við höldum áfram að fylgja fyrirmælum stjórnvalda og reynum að ná þessu hratt niður, eina ferðina enn.  
 
Frekari upplýsingar koma inná bæjarvefinn um þjónustu stofnana þegar þær liggja fyrir, auk þess sem skólarnir senda foreldrum og forráðafólki nauðsynleg skilaboð. 
 
Björg Ágústsdóttir 
bæjarstjóri