Á nýársdag sæmdi forseti Íslands ellefu einstaklinga heiðursmerkjum Fálkaorðunnar.  Á meðal þeirra sem þessa heiðurs urðu aðnjótandi, var Hildur Sæmundsdóttir, ljósmóðir frá Grundarfirði.  Hildur hlaut riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir störf að heilbrigðismálum og forvörnum.  Hildur er öllum Grundfirðingum kunn fyrir störf sín, t.d. í heilsugæslunni og fyrir Rauða krossinn.  Hildur hefur vakað yfir velferðarmálum í sinni heimabyggð af mikilli elju og dugnaði um langt árabil.  Hildur er afar vel að þessum heiðri komin og eru henni færðar hamingjuóskir af þessu tilefni.