Sunnudaginn 3. apríl komu bormenn Ræktunarsambandsins, sem nú vinna við borun vinnsluholu í Berserkseyrarodda, niður á fyrri vatnsæðina (sprungu) sem ætlunin var að sneiða og hittu þeir hana á um 380 metra dýpi. Blásið var úr holunni og að sögn dr. Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings mun rennslið varla hafa verið undir 20 l/sek. og hitinn um 80°C í vatnsæðinni. Svokallaðri skáholuborun er beitt og er hallinn á holunni um 23,8° frá lóðlínu.

 

Bormenn skiptu svo úr loftborun og yfir í tannhjólakrónu og skv. upplýsingum nú síðdegis var búið að bora um 386 metra og ljóst að vatnsæðin er um 4-5 metra víð, sem þykir mjög gott. Rennslið úr holunni var ennfremur talið mun meira en í upphafi.