- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Orkuveita Reykjavíkur hefur hafið borun á fimm til sex holum í landi Berserkseyrar við Hraunsfjörð á norðanverðu Snæfellsnesi. Um er að ræða hitastigulsholur og eiga niðurstöður borananna að gera jarðvísindamönnum kleift að staðsetja með nákvæmari hætti jarðhita á svæðinu. Borun á að ljúka um miðjan mars og þá tekur við úrvinnsla rannsóknargagna.
Þegar hafa verið boraðar vinnsluholur á svæðinu, en leitast er við að finna meira og heitara vatn fyrir hitaveitu í Grundarfirði. Það er fyrirtæki Árna Kópssonar, Vatnsborun, sem sér um boranirnar. Þeim er þannig háttað að fyrst eru boraðar þrjár holur á fyrirframákveðnum stöðum. Að því loknu verður staðsetning síðustu tveggja til þriggja holanna ákveðin. Hver hola er 50 til 80 metra djúp.