Með afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár var ákveðið að gjaldskrár og álagningarprósentur verði að mestu óbreyttar á næsta ári frá því sem verið hefur.  Nauðsynlegt mun þó reynast að hækka útsvarsprósentu í það hámark sem lög munu kveða á um.  Þetta er nauðsynlegt til þess að sveitarfélagið fái eðlilegan hlut í framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en þau eru skilyrt um fulla nýtingu tekjustofna.  Fasteignaskattsprósentum verður þó ekki breytt og þjónustugjöld verða þau sömu utan þess að nauðsynlegt er að hækka sorpgjöldin.  Gjöld fyrir sorpmeðhöndlun eiga að standa undir kostnaði skv. ákvæðum laga og er reynt í áföngum að ná því takmarki en þó þannig að þetta gerist í smáum skrefum á hverju ári.  Vegna mikils kostnaðar við vistun eins til tveggja ára barna í leikskólanum, er stefnt að hækkun

vistunargjalda vegna þeirra þannig, að gjald fyrir 8 klst. vistun breytist frá því að vera kr. 24.840 í 37.260 frá og með 1. ágúst á næsta ári þegar um pör eða hjón er að ræða, en fyrir einstæða foreldra breytist gjaldið úr kr. 16.146 í kr. 24.219.  Allt verður sem sagt óbreytt á vorönninni en þessi breyting mun koma fram þegar haustönnin byrjar. Gjald fyrir morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu breytist ekki.  Systkinaafsláttur verður óbreyttur og er þriðja barn áfram frítt í leikskólanum og afslættirnir virka á milli skólastiga og vegna vistunar hjá dagmæðrum, verði slík þjónusta í boði.