Börnin mynda hjarta við Fellaskjól, 7. maí 2020. Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson.
Börnin mynda hjarta við Fellaskjól, 7. maí 2020. Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson.

Mánudaginn 4. maí sl. hófst skólastarf að nýju með fyrra fyrirkomulagi. Flestir voru því mjög fegnir, enda voru vinir og félagar sumir hverjir að hittast aftur eftir nokkurra vikna aðskilnað. Allt hefur þó gengið vel. Af þessu tilefni tóku nemendur í Grunnskóla Grundarfjarðar og Leikskólanum Sólvöllum, ásamt kennurum og starfsfólki, sig til og fögnuðu þessum tímamótum.  

Þó börnin fái nú að umgangast óháð hópaskiptingum og takmörkunum í námi, þá eru ekki allir í þeirri stöðu. Eldra fólk, m.a. íbúar á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Fellaskjóli, hefur um langan tíma þurft að halda sig heima og heimsóknir verið afar takmarkaðar. Á Fellaskjóli eru enn takmarkanir á heimsóknum, þó aðeins hafi verið rýmkað um þær nú í vikunni.

Leik- og grunnskólabörn sýndu í dag samhug með eldra fólkinu okkar með því að mynda hjarta fyrir utan Fellaskjól. Hjartað er táknrænt, því óhætt er að segja að ástandið síðustu vikur hafi fengið hjörtu okkar, heimamanna sem landsmanna allra, til að slá í takt. 

Við höldum áfram að virða þær reglur sem við höfum lagt á minnið undanfarnar vikur; höldum tveggja metra fjarlægð, þvoum hendur og sprittum. Forðumst mannmergð, eftir aðstæðum. En munum þó að hver stund er dýrmæt og gott að geta fagnað öllum litlu sigrunum, á ábyrgan hátt.

Þó staðan sé sannarlega alvarleg nú um stundir, fyrir fyrirtæki og fjölskyldur, þá er samt mikilvægt að einblína ekki á það neikvæða sem þessi faraldur hefur lagt á okkur, heldur horfa einnig á það sem við höfum lært og það sem við viljum taka með okkur út úr þessari reynslu.

Grundarfjarðarbær færir börnum bæjarins sérstakar þakkir fyrir samvinnu og þolinmæði undanfarnar vikur, á þessum sérstöku tímum, sem og við gerð þessarar myndar. Starfsfólk skólanna og Tómas Freyr ljósmyndari fá einnig bestu þakkir fyrir að gefa sér tíma fyrir myndatökuna og þessa fallegu mynd.

Um leið sendum við hjartans kveðjur til íbúa og starfsfólks á Fellaskjóli!