Ný grunnsýning verður opnuð laugardaginn 23. september kl. 14:30 í Norska húsinu í Stykkishólmi. Sýningin leysir af hólmi fyrri grunnsýningu safnsins sem staðið hefur yfir á miðhæð hússins síðan árið 2001.

Byggðasafnið hlaut öndvegisstyrk Safnaráðs árið 2020 til að ráðast í gerð nýrrar grunnsýningar og var víðtækt samráð haft um sýninguna þar sem íbúar Snæfellsness tóku virkan þátt í samtalinu um nýja grunnsýningu. Niðurstaða stýrihóps sem hélt utan um undirbúningsferilinn var að ný sýning myndi fjalla um ungt fólk á Snæfellsnesi á tuttugustu og tuttugustu og fyrstu öldinni. Anna Melsteð þjóðfræðingur í Stykkishólmi var ráðin sem sýningarstjóri og Finnur Arnar Arnarsson er sýningarhönnuður.

Sýningin ber heitið „Hjartastaður - Sjóndeildarhringurinn með augum ungs fólks á Snæfellsnesi frá 1900“ og dregur fram sjónarhorn ungs fólks á umhverfi sitt og tengingu þess við átthagana en saga Snæfellsness blandast þar inn í enda ótalmargir utanaðkomandi þættir í sögunni sem höfðu afgerandi áhrif á líf ungmenna á tímabilinu 1900 til samtímans. Reynt er að endurspegla menningu og veruleika ungs fólks á Snæfellsnesi meðal annars með viðtölum við Snæfellinga á ýmsum aldri. Auk þess varpa heimildir og gögn annarsstaðar frá ljósi á sögusvið sýningarinnar. Dustað er rykið af hluta þeirra 6000 gripa sem Byggðasafnið varðveitir og tengjast umfjöllunarefninu. Má þar finna forvitnilega hluti sem á einhverjum tímapunkti hafa haft áhrif líf ungs fólks. Hlaðvarpsþættir, byggðir á rannsóknarviðtölum sem gerð voru fyrir sýninguna líta dagsins ljós fyrri hluta árs 2024 auk þess margskonar viðburðir tengdir efni sýningarinnar eru áætlaðir.