Hlýindi hafa einkennt Páskaveðrið í Grundarfirði, eins og víðar um land. Hiti hefur verið um 8-12°C síðustu daga, en nokkur úrkoma. Margir hafa notað frídagana til útivistar, vinsælt er að ganga eftir reiðveginum sem teygir sig alla leið frá hesthúsahverfi vestan þéttbýlisins og út fyrir Kverná, austan byggðarinnar.

Kirkjugestir tóku Páskadaginn snemma því messað var í Grundarfjarðarkirkju kl. 9 og minnst upprisu Jesú. Messað var í Setbergskirkju Föstudaginn langa og sameiginleg athöfn var með Ólsurum og Grundfirðingum í Ólafsvíkurkirkju á Skírdagskvöldi.

Skírdagsmót var haldið í blaki kvenna í íþróttahúsinu í Grundarfirði og er orðin hefð.

 

Bátar hafa róið suma daga Páskanna, t.d. í gær, laugardag, og var mokfiskirí.

 

Á annan í páskum, mánudaginn 28. mars, verður svo haldið Páskamót Hesteigendafélags Grundarfjarðar, á félagssvæðinu. Mótið hefst kl. 13.00 og það eru Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sem gefa verðlaunin á mótinu. Hesteigendur hvetja alla til að mæta.