Hopphjól í Grundarfirði - skjáskot úr Hopp smáforritinu sem hlaðið er niður í síma
Hopphjól í Grundarfirði - skjáskot úr Hopp smáforritinu sem hlaðið er niður í síma

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á sumardaginn fyrsta hóf rafskútuleigan Hopp þjónustu í Grundarfirði, með leigu á rafskútum eða Hopphjólum. 

Þann 17. apríl sl. skrifaði Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri undir samstarfsyfirlýsingu um stöðvalausa rafskútuleigu við fyrirtækið Snæhopp ehf., sem er sérleyfishafi Hopp á Snæfellsnesi. Hopp býður upp á skammtímaleigu á rafdrifnum hlaupahjólum sem hafa verið að ryðja sér til rúms sem nýr samgöngumáti um allan heim síðustu árin. Um þennan samgöngumáta er notað íslenska nýyrðið "örflæði" og vísar það til smærri farartækja sem nýta samgönguinnviði betur, nýta ekki jarðefnaeldsneyti og eru oft í boði í skammtímaleigu. 

Í fréttatilkynningu frá Hopp kemur fram að fyrirtækið hefur boðið upp á leigu á rafskútum síðan 2019 og býður nú íbúum og gestum í Grundarfirði þennan umhverfisvæna samgöngumáta. Til að byrja með verða 15 rafskútur á svæðinu.

Fyrirkomulag rafskútuleigunnar fyrir notendur í Grundarfirði verður eins og þekkist annars staðar. Fólk notar smáforrit (app) sem er hlaðið niður í símann til að finna næsta lausa hjól, aflæsa því og leggja svo af stað. Fyrir þjónustuna greiðir notandi upphafsgjald og mínútugjald samkvæmt verðskrá fyrirtækisins. Sem dæmi kostar tíu mínútna ferð á Hopphjóli notandann 430 kr. Þegar ferðinni er lokið er hægt að leggja rafskútunni hvar sem er innan þjónustusvæðisins. Það er mikilvægt að notendur gæti vel að því hvar hjólinu er lagt. Passa þarf að hjólið hindri ekki aðgang fyrir gangandi vegfarendur á gangstétt eða bíla á götum eða skapi að öðru leyti hættu. Fólk er einnig beðið um að virða bæði umferðarreglur og reglur Hopp, sem gilda um þessi hjól.

Hámarkshraði hjólanna er 25 km/klst og komast þær hátt í 40 km á einni hleðslu. 

Nokkur atriði um hjólin, skv. fréttatilkynningu og reglum Hopp: 

  • Það er 18 ára aldurstakmark 
  • Mælt er með að nota hjálm
  • Ekki fara á viðkvæm svæði, s.s. gras eða annan gróður og ekki á "rauð svæði" skv. appinu, þar er hjólunum ekki ætlað að vera
  • Virða aðra vegfarendur
  • Ekki aka of hratt
  • Passa hvar og hvernig hjólinu er lagt eftir notkun

Grundarfjarðarbær hvetur notendur til að virða ofangreindar reglur við notkun á þessum nýju tækjum og leggja sitt af mörkum til að allt gangi vel fyrir sig.  

Hér má finna leiðbeiningar Samgöngustofu um vélknúin hlaupahjól

Hér má finna leiðbeiningar á vef Hopp

 

Snæhopp og Grundarfjarðarbær apríl 2023   

Björg bæjarstjóri og Lilja Jóhannsdóttir frá Snæhopp ehf. undirrita samstarfsyfirlýsingu um rafhjólin þann 17. apríl sl.