Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar horfir til framtíðar og fylgir svæðisskipulagi eftir með því að marka nánari stefnu í aðalskipulagi sínu um umhverfi fólks og fyrirtækja.

Grundarfjarðarbær hefur samið við ráðgjafarfyrirtækið Alta um endurskoðun aðalskipulags bæjarins. Skrifað var undir samning þar að lútandi föstudaginn 8. janúar sl., með hefðbundnum fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn samþykkti í október 2014 að fram færi heildarendurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins en skipulagstímabil gildandi aðalskipulags var til ársins 2015. Nýtt aðalskipulag verður til a.m.k. 12 ára. Bæjarráð fól bæjarstjóra að ganga til samninga við Alta um endurskoðun aðalskipulagsins, á grundvelli tillögu sem Alta vann fyrir bæjarstjórn í október 2015.

 

Verkið felst í að endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins m.t.t. þróunar sem orðið hefur frá því núgildandi aðalskipulag var samþykkt, fyrir þéttbýlið 2003 og dreifbýlið 2010, og út frá mati á framtíðarþróun. Á grunni þessa mats verða viðfangsefni endurskoðunar ákveðin og stefna til a.m.k. næstu 12 ára mótuð. Hluti verkefnisins er að uppfæra aðalskipulagið til samræmis við kröfur nýrrar skipulagsreglugerðar.

 

Lögð verður áhersla á að kynna framgang verkefnisins vel fyrir bæjarbúum. Fyrsti áfangi verksins er gerð verkefnislýsingar þar sem fram mun koma hvernig samráði verður háttað og hvar og hvernig tækifæri gefast til að koma hugmyndum og sjónarmiðum á framfæri.

 

Við endurskoðunina verður t.d. tekist á við það hvernig búið er í haginn fyrir atvinnulíf í bæjarfélaginu. Liður í því er að rýna þrjú svæði og vinna fyrir þau nánara skipulag en aðra hluta, svokallaðan rammahluta aðalskipulags. Svæðin þrjú eru miðbær, hafnarsvæði og athafnasvæði á Framnesi.

 

Þorsteinn Steinsson bæjarstjóri sagðist hlakka til vinnunnar framundan, hún fæli í sér gott tækifæri til samtals við íbúa um tækifæri og þróun samfélagsins. Góður grunnur var lagður með samþykkt fimm sveitarfélaga á svæðisskipulagi fyrir Snæfellsnes í mars 2015. Svæðisskipulagið einfaldar vinnuna við aðalskipulagið nú, þar sem það leggur ákveðnar línur um þróun svæðisins til framtíðar sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa sammælst um að útfæra nánar í aðalskipulagi sínu.


Ráðgjafarfyrirtækið Alta er með starfsemi á Snæfellsnesi og í Reykjavík. Verkefnisstjóri verður Björg Ágústsdóttir, ráðgjafi hjá Alta í Grundarfirði, en hún og Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Alta, verða helstu ráðgjafar í verkefninu. Þær Björg og Matthildur voru einnig aðalráðgjafar við undirbúning að stofnun Svæðisgarðsins Snæfellsness og gerð svæðisskipulagsins fyrir Snæfellsnes. Aðrir ráðgjafar Alta koma einnig að verkinu og verða bæjarstjórn og skipulagsnefnd til aðstoðar. Verkið hefst í janúar 2016, en áætluð verklok eru haust/vetur 2017.