Miðvikudaginn 4. apríl sl. var efnt til móttöku og athafnar þegar Hótel Framnes var enduropnað af nýjum eigendum.  Gísli Ólafsson og Shelagh Jessie Smith keyptu hótelið af fyrri eigendum á síðastliðnu hausti.  Unnið hefur verið hörðum höndum að endurbótum og endurskipulagningu innréttinga í hótelinu.  Móttakan og veitingastofan hafa verið flutt á jarðhæðina en í staðinn fjölgar herbergjum á 2. hæðinni.  Öll herbergi hótelsins,  27 að tölu, eru með sér baði og sum bjóða upp á litla eldhúsaðstöðu fyrir fjölskyldufólk.

 

Eigendurnir lýstu fyrir boðsgestum breytingunum og endurbótunum sem þegar er að fullu lokið við og einnig þeim sem enn eru í smíðum.  Öllum sem komu að vinnu við endurbæturnar var þakkað fyrir fórnfús störf.  Aðstaðan í móttökunni og veitinga-aðstöðunni er vönduð og hlýleg.  Gestum var svo boðið upp á kræsingar sem gestakokkurinn Bjartmar Pálmason framreiddi með glæsibrag.

Hinir nýju eigendur Hótel Framnes gátu þess við athöfnina, að það hefði verið gott að taka við þessu búi af fyrri eigendum, þeim Ingibjörgu Torfhildi Pálsdóttur og Eiði Erni Eiðssyni.  Gísli og Shelagh þökkuðu Ingibjörgu og Eiði góð ráð og leiðsögn.