- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Vegagerðin hefur samþykkt beiðni Grundarfjarðarbæjar um að fjármunir verði lagðir í að auka umferðaröryggi á Grundargötu.
Samstarf um þjóðveg í þéttbýli
Grundargatan er þjóðvegur í þéttbýli og Vegagerðin kostar uppbyggingu og endurbætur á götunni sjálfri, m.a. hraðalækkandi aðgerðir. Grundarfjarðarbær sér hinsvegar um uppbyggingu og viðhald gangstétta, auk þess sem bærinn sér um almennt viðhald og rekstur götunnar skv. sérstökum samningi sem gerður er árlega við Vegagerðina.
Samtalið við Vegagerðina um hraðalækkandi aðgerðir hefur staðið í allnokkurn tíma eða frá því að öll Grundargatan var malbikuð sumarið 2021 og eldri hraðahindranir voru fjarlægðar á nokkrum stöðum þar sem þær voru orðnar slitnar. Framkvæmdirnar má rekja aftur til ársins 2005 og 2006, en þá var hönnuð og útfærð "hverfisvæn leið um Grundargötu". Var það sérstakt þróunarverkefni á vegum Vegagerðarinnar, í samvinnu við og að beiðni Grundarfjarðarbæjar. Farið var í margvíslegar breytingar og hraðalækkandi aðgerðir á götunni, eftir hönnun Verkfræðistofunnar VST, með það að leiðarljósi að bæta umferðaröryggi á Grundargötu, þjóðvegi í þéttbýli. Nú er kominn tími á ýmsar endurbætur á þeim framkvæmdum og hefur Grundarfjarðarbær óskað eftir að Vegagerðin setji fjármuni í það.
Hraðahindranir
Til stendur að setja niður hraðahindranir á tveimur stöðum í götunni.
Annars vegar hefur verið lögð malbikuð hraðahindrun, nokkuð löng, staðsett í hallanum upp að fyrstu húsum við austanverða Grundargötu. Malbikun Akureyrar sá um verkið sem unnið var snemma morguns 20. september 2025.
Hinsvegar stendur til að malbika samskonar hraðahindrun vestan til í Grundargötu og verður það framkvæmt á næstunni.
Fleiri hraðanemar eða "broskallar"
Í lok síðasta árs samþykkti Vegagerðin að setja upp fleiri "raunhraðaskilti" eða broskalla og voru þeir settir upp nú í sumar. Þetta eru skilti sem mæla raunhraða ökutækja og eru þau nú á tveimur stöðum á Grundargötu; við Kaffi Valería, Grundargötu 24, og við Verslunina Blossa, Grundargötu 61. Nýju skiltin koma til viðbótar við þau tvö sem fyrir eru við innkomuna sitthvorum megin í bæinn. Broskallarnir eiga að hvetja vegfarendur til að lækka hraðann, ef keyrt er of hratt.
Nýju broskalla-skiltin mæla einnig og geyma upplýsingar um fjölda bifreiða, meðalhraða og einstaka „toppa“ í hraða. Hægt verður að lesa af mælunum og fá þannig upplýsingar um „umferðarhegðun“ á götunni. Þær upplýsingar eiga að geta hjálpað okkur við ákvarðanir um frekari aðgerðir á Grundargötunni, með það að markmiði að auka umferðaröryggi.
Heildarskipulag
Jafnframt stendur til að fara í endurskoðun á umferðarskipulagi Grundargötu síðan 2005/2006 – með umferðaröryggi í huga og hefur Vegagerðin samþykkt að bærinn sjái um þá endurskoðun, í samstarfi við Vegagerðina. Í því gæti falist breyting á hönnun í götunni og fyrirkomulagi til lækkunar á hraða. Þetta mun væntanlega vinnast á komandi vetri.
Ef spurningar vakna, endilega látið heyra frá ykkur. Senda má ábendingar á netfangið grundarfjordur@grundarfjordur.is