- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Þann 6.júlí fóru 10 vaskar stelpur úr Grundarfirði ásamt hópstjórunum, Vigdísi og Þóru Möggu, inn í Stykkishólm til að læra að róa kajak. Hér var um að ræða hluta úr stelpuhópi sem myndaður var hér fyrr í sumar og stjórnað er af Þóru Möggu og Vigdísi Gunnarsdóttur. Hópurinn hittist einu sinni í viku og er markmiðið að rækta sitt innra sjálf, m.a. með því að takast á við óvænta og nýja hluti eins og kajakróður.
Eftir að hafa vanist tilhugsuninni að vera á leiðinni út á sjó sýndu Steini og Sumarliði okkur réttu handtökin við árina og svo var auðvitað farið yfir helstu öryggisatriði varðandi það sem við allar höfðum áhyggjur af að við myndum hvolfa bátunum! Þegar búið var að róa allan hópinn og sannfæra hann um að við myndum lifa þetta af var tekið til við að bera kajakana niður að sjó.
Síðan var ýtt á flot og ekki laust við að smá geðshræring gerði vart við sig. Fór nú hver á fætur annarri á flot og var þá bara að finna taktinn, hvernig ætti að beygja, komast beint og draga úr líkunum á að klessa hvor á aðra.
Sigldum við nú um í u.m.þ.b. 1 ½ klst. og er varla hægt að lýsa því með orðum hversu góð tilfinninga það var að vera frjáls, hafa stjórn á bátnum og láta sig öðru hvoru fljóta og njóta kyrrðarinnar og róandi öldugjálfurs. Enda nefndi ein að hingað ætti maður sko að koma þegar maður væri pirraður.
Fyrir utan þetta allt saman var glampandi sólskin og hægur andvari, höfðu nokkrar á orði að við gætum hugsanlega náð okkur í smá sólbrúnku í leiðinni. Á leiðinni heim í bílnum heyrðist varla múkk og einhverjar sofnuðu á leiðinni, þreyttar en endurnærður eftir skemmtilega ferð.
Þegar við keyrðum þá síðustu heim sagði hún um leið og hún kvaddi “það er alveg ótrúlegt hvað maður getur gert”!