Hin árlega Hreyfivika UMFÍ fer fram í næstu viku, dagana 21.-27. september. Eins og nafnið gefur til kynna þá er hér um að ræða viku þar sem hvers konar hreyfing verður í fyrirrúmi. 

 

Hreyfivikan (e. MoveWeek) er liður í stóru lýðheilsuverkefni sem fer fram á sama tíma í allri Evrópu. Markmið MoveWeek hreyfingarinnar er háleitt því meiningin er að fá hundrað milljón fleiri íbúa Evrópu til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020. Það er því ærið verkefni fyrir höndum og ætlum við Grundfirðingar að leggja okkar af mörkum með ýmsu móti. Í dagskrá Hreyfivikunnar hér í Grundarfirði er reynt að höfða til sem flestra og verður dagskráin meðal annars aðgengileg á vef og Facebook-síðu bæjarins.

 

Fjölmargir hér í bæ hafa tekið að sér að vera boðberar Hreyfivikunnar og má þar nefna skólana, Ungmennafélagið, Líkamsræktina, Skokkhóp Grundarfjarðar, Golfklúbbinn Vestarr og Félag eldri borgara auk einstaklinga sem hafa tekið að sér að leiða okkur í hreyfingu þessa viku.

Þó stutt sé í Hreyfivikuna þá erum við enn að bæta við viðburðum inn í dagskrána svo endilega látið okkur vita ef þið hafið ábendingar um hreyfingu sem á erindi inn í dagskrá.

Kæru Grundfirðingar, tökum virkan þátt í Hreyfivikunni á einn eða annan hátt og hreyfum okkur. Til dæmis má ganga eða hjóla í vinnu eða skóla, skipuleggja gönguferð með vinnufélögunum eða bara standa á höndum í kaffistofunni, það telur allt.