Hin árlega Hreyfivika UMFÍ verður dagana 23.-29. maí næstkomandi og fer hún samtímis fram í allri Evrópu þessa daga. Hreyfivikan, sem á ensku nefnist Move Week, er evrópsk herferð á vegum ISCA (International Sport and Culture Association) og er markmið hennar að 100 milljónir Evrópubúa verði orðnir virkir í hreyfingu og íþróttum fyrir árið 2020.

 

Grundarfjarðarbær hefur tekið þátt í Hreyfivikunni undanfarin þrjú ár og verður einnig með að þessu sinni. Dagskrá Hreyfivikunnar hér í Grundarfirði er að taka á sig mynd og meðal þess sem boðið verður upp á eru Hit- og bjöllutímar með Þóreyju, frisbígolf, SNAG, klifurveggur hjá björgunarsveitinni Klakki, Gönguferðir með Ferðafélaginu, skokk með skokkhópi Grundarfjarðar og vinnudagur með skíðadeild UMFG. Enn er opið fyrir góðar hugmyndir að hreyfingu en dagskráin verður borin út í hús bæjarins í lok þessarar viku.

Golfvöllurinn í Suður-Bár verður opinn alla dagana og aðgangur að honum ókeypis og sama gildir um sundlaugina.

Að þessu sinni verður Grundarfjarðarbær með í sundkeppni sveitarfélaganna, sem var fyrst haldin í Hreyfivikunni á síðasta ári. Hún fer þannig fram að sundlaugargestir skrá nafn sitt á eyðublað í afgreiðslu sundlaugarinnar og hversu marga metra var synt. Staðan er svo reiknuð út frá fjölda íbúa í hverju sveitarfélagi og birt daglega um hádegi á heimasíðu og Facebook-síðu UMFÍ. Mikil stemmning var fyrir sundkeppninni á síðasta ári og eru Grundfirðingar nú hvattir til að skrá sig til leiks og synda nokkrar ferðir áður en slakað er á í heitu pottunum.