Vikuna 17. – 23. febrúar verður haldin Hreystivika í Grundarfirði. Grundarfjarðarbær vinnur vikuna í samsarfi við Ungmennafélagið, Ræktina, Dvalarheimilið Fellaskjól og fleiri aðila og félagasamtök í Grundarfirði. Markmið Hreystiviku er að vekja athygli á og stuðla að andlegu og líkamlegu hreysti. Þá er það einnig markmið Hreystiviku að sem flestir bæjarbúar finni eitthvað við sitt hæfi. Dagskrá er að finna hér.

Við byrjum vikuna með 5Rythma dansi á Fellaskjóli. Þar ætlar Sigurborg Kr. Hannesdóttir að leiða heimilisfólk og aðra gesti í dans sem nærir bæði líkama og sál. Sigurborg ætlar einnig að leiða 5Rythma dans laugardaginn 22. febrúar kl 13:00 á heimili sínu að Læk.  Frítt og allir velkomnir. 

Á meðan Hreystivikan stendur yfir þá mun UMFG opna ákveðna tíma í fótbolta, karate, fimleikum og frjálsum. Í opnu tímunum gefst tækifæri til þess að kynna sér nýjar æfingargreinar. Tímasetningar opnu tímanna er að finna á heimasíðum  UMFG og Grundarfjarðarbæjar.

Ræktin býður áhugasömum í hóptíma í bjöllum ásamt átakstímum ætluðum konum. Þá verður tekið sérstaklega vel á móti nýjum félögum og þeim kynnt aðstaða ræktarinnar.

Laugardagurinn 22. febrúar verður tekinn með trompi. Dagskráin hefst kl 11:00 á fræðslu og myndasýningu Ferðafélags Snæfellsness í Sögumiðstöðinni. Svokallaður fjölskyldudagur hefst í íþróttahúsinu kl. 13:00, þar verða ýmsir leikir og þrautir í boði. Gestum býðst meðal annars að leika golf, svokallað SNAG sem er golfæfingarleikur fyrir alla aldurshópa. Ræktin kemur svo til með að standa fyrir tískusýningu á íþróttafatnaði.

Í Hreystiviku verður boðið uppá tvo fyrirlestra. Kvenfélagið Gleym mér ei  býður uppá fyrri fyrirlesturinn. Þá mun Emil Einarsson, sálfræðingur Félags og skólaþjónustunnar, halda erindi með yfirskriftinni: ,,Hugsun og líðan: Get ég haft áhrif á geðheilsu mína með aðferðum  Hugrænnar Atferlismeðferðar?“  Erindið hefst í Bæringsstofu kl 17.00 mánudaginn 17. febrúar.

Seinni fyrirlesturinn er í boði Grundarfjarðarbæjar sem hefur fengið heildræna heilsufræðinginn Matta Ósvald til liðs við sig. Matti mun ræða um heilbrigða skynsemi í heilsumálum og lykilatriðin við það að koma sér í form. Þetta er fyrirlestur sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 í Bæringsstofu.

Síðasti viðburður vikunnar er sunnudaginn 23. febrúar en þá ætlar Hestamannafélagið að vera með opið hús í reiðhöllinni. Allir velkomnir og kjörið að mæta með yngstu kynslóðina og leyfa þeim að prófa að fara á bak.

Hér er aðeins tæpt nokkrum viðburðum en auk þess sem hér hefur verið nefnt má nefna karate fyrir fullorðna, pílu, yoga og margt fleira.

Notum tækifærið og nærum líkama og sál í Hreystiviku.