Í september sl. samdi bæjarstjórn við Zeppelin arkitekta í Garðabæ, stofu í eigu Orra Árnasonar, um skipulagsvinnu fyrir bæinn. Um er að ræða umfangsmikil verkefni við deiliskipulagningu og tilteknar breytingar á gildandi aðalskipulagi. 

 

 

Verkefnin voru skilgreind þannig:

·        Fyrsti áfanginn felst í að deiliskipuleggja nýtt íbúðahverfi við vestanverða Grundargötu.

·        Í öðru lagi að vinna skipulag miðbæjar, enda hafði komið í ljós, m.a. á íbúaþingi í mars sl., að íbúar vilja skerpa miðbæjarmyndina og skapa aðlaðandi miðbæ.

·        Jafnframt á að taka íþróttasvæðið sérstaklega til skoðunar og horfa til framtíðaruppbyggingar þar, tjaldsvæðis einnig, líklegast í tengslum við íþróttasvæðið.

·        Að lokum á að taka framtíðarbyggingarsvæði í Grafarlandi austan Gilóss til skipulagningar.

·        Í allri skipulagsvinnunni á svo að huga að tengingu þessara svæða, t.d. hvernig miðbær, íþróttasvæði og íbúðarhverfi í Grafarlandi tengist á sem bestan hátt.

·        Að auki var Zeppelin arkitektum og samstarfsfólki falið að gera tillögur að endurbótum og fegrun umhverfis, s.s. breyttri götumynd, í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir vegna hitaveitulagningar.

 

Bæjarstjórn fól sérstökum skipulagshópi að stýra skipulagsvinnunni og vinna með Zeppelin, en í hópnum sitja allir fulltrúar í umhverfisnefnd, fjórir bæjarfulltrúar, auk skipulags- og byggingarfulltrúa og bæjarstjóra. Á fyrsta fundi nefndarinnar í októberbyrjun sl. var rætt um útfærslur á því hvernig tillögur yrðu kynntar og bornar undir íbúa, enda mikill vilji hjá nefndarmönnum til þess. Í byrjun nóvember kynntu arkitektarnir fyrstu hugmyndir um skipulag á ofangreindum svæðum. Skipulagshópurinn hefur unnið úr þessum hugmyndum og þær verið að þróast síðan. Ýmsum grundvallarspurningum hefur þurft að svara við mótun tillagnanna, enda mikið efni undir. Á fundi hópsins með Orra þann 31. janúar sl. voru menn sammála um að hugmyndirnar væru nú orðnar tækar til kynningar og nauðsynlegt að fá viðbrögð íbúa við þeim. Frekari mótun tillagnanna og ákvarðanir munu svo ráðast af viðtökunum. Innan tíðar verða tillögurnar settar á bæjarvefinn og boðað til kynningarfunda um efnið.

Skipulagsmál eru eitt af stærstu verkefnum bæjarins um þessar mundir og spennandi tækifæri Grundfirðinga fólgin í þeirri framtíðarsýn sem þeir hafa nú tækifæri til að móta fyrir bæinn.

 

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri