Nokkuð hefur borið á lausagöngu hunda í þéttbýlinu. Einnig hefur hunda- og kattasaur verið áberandi nú þegar snjóa leysir.

Eigendur eru minntir á að lausaganga hunda er með öllu óheimil innanbæjar og hundar í dreifbýli mega eingöngu vera lausir innan landareignar eigendanna. Eigendum hunda er ávallt skylt að fjarlægja saur eftir hunda.

Lausaganga hunda

Þó hundar geti verið hvers manns hugljúfi og séu oft kallaðir besti vinur mannsins þá er ekki hægt að ganga út frá því að allir kunni að umgangast hunda eða líki vel við þá. Þegar hundar eru glaðir sýna þeir tennurnar og hlaupa í áttina að okkur, jafnvel geltandi og getur það leitt til þess að þeir sem eru ekki vanir hundum hræðist þessar aðferðir þeirra, eins og t.d. börn.

Hundar eiga alltaf að vera í taumi utan húss og í umsjón eða fylgd ábyrgs aðila. Sleppi hundur frá eiganda eða umráðamanni, skal viðkomandi tafarlaust gera ráðstafanir til að handsama hann.

Hunda- og kattasaur

Hundaeigendum er skylt að taka upp eftir hundinn sinn sbr. 14. gr. í samþykkt um hundahald í Grundarfjarðarbæ, en þar segir:

“Eigendum og umráðamönnum hunda er ávallt skylt að fjarlægja saur eftir hunda þeirra hvort sem um þeirra eigin lóð er að ræða eða eigi [...]” 

Eigendum katta er sömuleiðis skylt að gæta þess að kettir þeirra valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifnaði eða raski ró manna.

Sú leiðinlega sjón blasir við okkur nú eftir að snjóa hefur leyst að hunda- og kattasaur er á víðavangi, t.d. á gangstéttum bæjarins. Þetta er ekki aðeins leiðinleg sjón heldur hreinlætismál. Það hefur óþægilegar afleiðingar ef stigið er í hundasaur eins og gerðist nýlega á gervigrasvelli við grunnskólann, þegar skólabörn að leik fengu þetta í fötin sín.

Á næstunni mun Grundarfjarðarbær senda saurpoka til eigenda leyfisskyldra hunda.

Virðum reglurnar

Samþykkt um hundahald í Grundarfjarðarbæ má lesa hér og samþykkt um kattahald má lesa hér.

Eigendur eru vinsamlegast beðnir um að virða ákvæði samþykkta um hunda- og kattahald, enda er það skilyrði leyfis til að mega halda hund eða kött.

Leggjum öll okkar af mörkum til að hafa bæinn okkar snyrtilegan – sýnum tillitssemi!

 

Bæjarstjóri